Ólafur Stephensen, stjórnarmaður í UN Women á Íslandi.
Í haust var ég að hlaupa í Fossvogsdalnum eins og ég geri oft. Ég var seint á ferðinni og fáir voru á ferli, enda komið myrkur. Þegar ég var búinn að hlaupa talsverðan spotta sá ég hlaupara á stígnum á undan mér. Þegar nær dró sá ég að þetta var kona. Hún leit í tvígang um öxl – hvort það var af því að hún heyrði másið í mér eða af því að henni fannst hún ekki fyllilega örugg á stígnum veit ég ekki – en af því að ég gerði einhvers staðar í undirmeðvitundinni ráð fyrir því að það gæti verið af síðarnefndu ástæðunni, ákvað ég á sekúndubroti að breyta um plan, sneri við og hljóp nokkra tugi metra og fann mér svo annan stíg. Ég vildi ekki að hún þyrfti að hafa áhyggjur af að einhver væri að elta hana.
Þessi skyndiákvörðun um breytingu á hlaupaleiðinni sprettur úr óþægilegum raunveruleika, sem er engu að síður fyrir hendi í borginni okkar. Konum finnst þær síður öruggar í borginni en karlar. Í nýlegri könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir lögregluna sögðust um 8% svarenda ekki vera örugg í sínu eigin hverfi eftir myrkur. Þar kom fram gríðarlegur kynjamunur; 12% kvenna finnst þær ekki öruggar í eigin hverfi á kvöldin, á móti 3,7% karla.
Myndin er sömuleiðis gríðarlega skökk þegar spurt er hvort fólki finnist það öruggt í miðborg Reykjavíkur. Næstum helmingur kvenna, eða 44%, sögðust telja sig mjög óöruggar í miðborginni eftir myrkur, en 19% karla.
Margar borgir heims eru langtum verri staður fyrir konur en karla. Landsnefnd UN Women hefur í vikunni herferð til að vekja athygli á mikilvægi þess að konur geti verið öruggar í almenningsrýmum og á opnum svæðum. Herferðin er hluti af alheimsátaki UN Women undir slagorðinu Öruggar borgir, eða Safe cities.
Öðrum þræði snýst þetta átak um aðgerðir í skipulagsmálum sem geta gert borgir öruggari, til dæmis með bættri lýsingu, betur afmörkuðum gönguleiðum, breiðari gangstéttum og þar fram eftir götunum.
Öðrum þræði snýst þetta átak um aðgerðir í skipulagsmálum sem geta gert borgir öruggari, til dæmis með bættri lýsingu, betur afmörkuðum gönguleiðum, breiðari gangstéttum og þar fram eftir götunum. Það að gera ráð fyrir öryggi kvenna í borgarskipulaginu hefur víða dregið úr ofbeldisbrotum.
Slíkar úrbætur uppræta samt ekki vandann. Sú breyting sem skiptir ekki síður máli er hugarfarsbreyting meðal karlmanna, sem eru undantekningarlítið gerendurnir í brotum sem gera það að verkum að konum finnst þær síður öruggar í borgum en karlar.
Við karlarnir eigum einfaldlega að vera sammála um að það er aldrei í lagi að beita ofbeldi, áreita konur eða sýna þeim ógnandi framkomu. Allir ljósastaurar heimsins taka ekki í burtu óttann og öryggisleysið sem margar konur upplifa. Að búa til öruggara borgarumhverfi að þessu leyti er á endanum undir okkur körlunum komið.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunniwww.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.