Í sjávarbyggðinni Vestmannaeyjum búa 4200 manns eða um 1,3% þjóðarinnar. Í sjávarbyggðinni Vestmannaeyjum eru á bilinu 10-13% aflaheimilda. Á yfirstandandi ári hefur íbúum farið fækkandi eins og reyndar flest ár frá 1991. Það er vitlaust gefið þegar 13% aflaheimilda standa ekki undir rúmlega 4000 manna byggð.
Ríkið hefur háa skatta út úr sjávarútegi
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Ísland er eina ríkið í heiminum sem fær meira út úr sjávarútvegi en lagt er til hans. Ekki eingöngu borgar hann skatta til jafns á við allar aðrar atvinnugreinar heldur borgar hann einnig sérstakt gjald til ríkisins sem oftast er kallað veiðigjald. Þannig var greiddur tekjuskattur sjávarútvegsfélaga um 21,5% á árinu 2013 af heildarsköttum ríkissjóðs á tekjur og hagnað lögaðila. Þar við bætist að sjávarútvegurinn greiddi um sextánþúsund milljónir króna (16.000.000.000 kr.) í almenn og sértæk veiðigjöld. Bara árið 2013 námu bein opinber gjöld á sjávarútvegsfélög um tuttugu og fjórum og hálfum milljarði króna (24.000.000.000 kr.) og hafa þessi gjöld þá rúmlega þrefaldast frá árinu 2009. Samt glíma sjávarbyggðir við vanda.
Eigendur fyrirtækja hafa arð af rekstrinum
Sem betur fer er arður af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Ef svo væri ekki færi atvinnugreinin sem stendur beint undir rúmlega 10% af landsframleiðslu (að mati sjávarklasans um 25% - 30% af heildarframleiðslu) lóðbeint á hausinn. Arður er eðlilegur hluti af kostnaði fyrirtæja – rétt eins og skattur. Heildar arðgreiðslur í sjávarútvegi þessi tvö ár voru um 18 milljarðar. Það er um 18% af hagnaði þessara fyrirtækja (Ebitu). Samt glíma sjávarbyggðir við vanda.
Makríllinn gerði gott betra
Á seinustu árum hefur ríkt góðæri í íslenskum sjávarútvegi. Makrílveiðar hafa skilað þjóðarbúinu miklum tekjum. Á vertíðnni 2011 var aflaverðmæti um þrjátíuþúsund milljón krónur (30.000.000.000 kr.) Uppsjávarveiðar hafa gengið sérstaklega vel. Vestmannaeyjar eru sérstaklega sterkar í uppsjávarveiðum. Samt fækkar í Eyjum.
Sjávarbyggðunum blæðir
Það er í mínum huga ekki nokkur vafi á að sjávarútvegurinn er að skila „þjóðinni“ arði af auðlindinni - það sýna skattgreiðslurnar. Það er ekki nokkur vafi á að sjávarútvegurinn er að skila eigendum sjávarútvegsfyrirtækja arði af fjárfestingunni – það sýna skattgreiðslurnar. Það er ekki heldur nokkur vafi á að sjávarútvegurinn er ekki að skila nægu til þróunar sjávarbyggða. Það sýna íbúatölur í Vestmannaeyjum og víðar.
Hráefnisframleiðendur eins og nýlendurnar voru
Staðreyndin er sú að sjávarbyggðir eru að verða eins og nýlendurnar voru. Þær eru nánast eingöngu hráefnisframleiðandi þar sem allt kapp er lagt á skjótfenginn árangur til að standa undir ofurskatti og arðgreiðslum. Stoðkerfið er byggt upp í öðrum og lægri póstnúmerum (td. eru um 160 ársverk hjá Hafrannsóknastofnun og þar af rúmlega eitt þeirra er í Vestmannaeyjum), svigrúm sjávarfyrirtæja til nýsköpunar er skattlagt í burtu úr sjávarbyggðum.
Hvað þarf að gera?
Það sem þarf að gera er að lækka skatta og byggja heldur inn skattalega hvata til nýsköpunar og þróunar í sjávarbyggðum. Framtíð sjávarútvegs er ekki í auknum veiðum heldur í sprotastarfi og nýsköpun. Framtíð sjávarbyggða er ekki í byggðakvótum og sértækum aðgerðum heldur í því að fyrirtækin sem þar eru fái hvata til að vaxa og dafna á forsendum nýsköpunar og virðisauka. Þannig verða til störf og verðmæti. Þannig fær þjóðin ekki bara arð heldur einnig vöxt. Þannig verða sjávarbyggðirnar öflugar í stað þess að vera ölmusuþegi í formi byggðarkvóta og sértækra aðgerða.
Eins og þetta er í dag þá er vitlaust gefið. Það er staðreynd. Það hallar á sjávarbyggðir. Ábyrgðin liggur hjá stjórnvöldum.
(…að gefnu tilefni er rétt að taka það skýrt fram að okkur hér í Eyjum er þó síst meiri vorkunn en öðrum þegar litið er til stöðu sjávarbyggða. Vandi þeirra er almennt mikill og víðast meiri en hér.)