Í dag, 16. september 2021, eru liðin tíu ár frá því að Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórn Íslands að fullgilda alþjóðasamning um aðgang umhverfisverndarsamtaka að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.
Samningurinn takmarkast, eins og heiti hans vísar til, við rétt til ákveðinnar málsmeðferðar. Hann viðurkennir að það þurfi fólk, almenning og samtök þeirra, til að gæta þeirra almannahagsmuna sem felast í heilnæmu umhverfi og vernd náttúru. Ekki höfðar víst umhverfið eða náttúran sjálf dómsmál eða skrifar umsagnir.
Efndirnar
Það hefur ekki gengið að öllu leyti vel að framkvæma Árósasamninginn, eins og hann er jafnan nefndur, á Íslandi. Sjálfstæð úrskurðarnefnd var stofnuð, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hún reyndist í fyrstu gagnslítil í umhverfismálum, þar sem mál voru síst skjótari í meðförum hennar en dómsmál. Það lagaðist svo. Þetta úrræði, úrskurðarnefndin, hefur reynst alveg ágætlega síðan og nefndin eflst, þó vissulega mætti ýmislegt laga til að hún gegndi hlutverki sínu sem best. Það eru hinsvegar aðrir armar ríkisvaldsins sem hafa brugðist. Nefndin hefur í tvígang kveðið upp úrskurði sem hafa orðið tilefni þess að ríkisstjórnir hafa lagt fram lagafrumvörp þeim til höfuðs. Þetta eru mál um stöðvun lagningu raflína um náttúruverndarsvæði og ógildingu leyfa fyrir sjókvíaeldi. Þannig hefur framkvæmdavaldið, og í seinna tilvikinu líka Alþingi sjálft, grafið undan nefndinni, og sér ekki fyrir endann á því máli. Þetta eru vissulega ekki einu tilvikin undanfarið þar sem framkvæmdavaldið grefur undan sjálfstæðum úrskurðarnefndum.
En löggjafinn og dómsvaldið hafa þó einkum brugðist þessari tíu ár gömlu skuldbindingu Alþingis. Síðasta föstudag komu fram alvarlegar ábendingar prófessors í umhverfisrétti og dósents í réttarfari í HÍ um að verulega skorti á að uppfyllt séu ákvæði Árósasamningsins um aðgang umhverfisverndarsamtaka að dómstólum. Í raun virðist sem staðan þar hafi hreinlega versnað frá því deilan um Kárahnjúkavirkjun stóð og um var fjallað í röð Hæstaréttarmála uppúr síðust aldamótum. Á þetta reyndi í dómsmálum sem vörðuðu Gálgahraun og í fáeinum dómsmálum síðan.
Dómstólum lokað
Í stuttu máli: engin krafa umhverfisverndarsamtaka hefur fengið efnisumfjöllun dómstóla frá því Árósasamningurinn var fullgiltur fyrir áratug.
Hvernig má þetta vera? Af hverju lokuðust dómstólar fyrir umhverfisverndarsamtökum fyrir tíu árum, um leið og Árósasamningurinn var fullgiltur? Við því er ekki einfalt svar. Síðasta dómsmálið af þessu tagi var fyrir Landsrétti árið 2018 og af umfjöllun fyrrnefndra háskólakennara að dæma virðast í senn brotin ákvæði Árósasamningsins, EES samningsins og almennra réttarfarslaga á Íslandi. Dómurinn hafnaði aðgangi að dómstólum, dæmdi að auki tvenn umhverfisverndarsamtök í milljóna króna málskostnað, sem þeim var gert að greiða ríkisstofnun og sveitarfélagi. Má ætla að kostnaður þeirra af málarekstrinum hafi numið samtals um fimm milljónum króna – og það þola engin umhverfisverndarsamtök að taka á sig nema einu sinni.
Ónefnt er að dómsmálaráðuneytið telur sér óheimilt að veita umhverfisverndarsamtökum gjafsókn fyrir dómi, þar sem þau eru lögaðili en ekki einstaklingur. Slíkt mál liggur nú á borði umboðsmanns Alþingis, og er það ekki hið fyrsta slíkra.
Það þarf að taka verulega til í löggjöfinni til þess að alþjóðaskuldbindingar séu virtar. Nú hefst annar áratugur Árósasamningsins. Vonandi verður hann betri en sá fyrsti.
Höfundur er lögmaður.