Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, skrifar um kjaramál og þá baráttu sem framundan er í þeim.
Nú þegar hin goðsagnakennda þjóðarsátt á vinnumarkaði fagnar brátt aldarfjórðungsafmæli er hún ákaft ákölluð þjóðinni til bjargar frá átökum, verkföllum, harðri ágjöf í rekstri fyrirtækja og háskalegu ójafnvægi í hagstjórn.
Það heyrist hins vegar lítið sem ekkert um það hverju þjóðarsátt nú geti skilað vinnandi fólki. Afhverju ætli það sé? Setjum okkur í spor formanns í verkalýðsfélagi: Hvað þarf hún til að geta lýst yfir sigri í samningum? Á Þorláksmessu fékk hluti almennings gjöf frá skattgreiðendum – allt að fjórum milljónum var færð þeim að gjöf sem höfðu mest tekið að láni. Hvað ætli þurfi að reikna saman núvirði margra kjarasamninga aftur í tímann til að ná 4 milljóna auðgun meðalmanns? Það er ekkert gefins segja menn við samningaborð á vinnumarkaði. En hverju vilja menn ná þar fram?
Aðilar vinnumarkaðar gætu tekið forystu um nýtt mat á aðstæðum og gert snjallar grundvallarbreytngar sem gagnast ótvírætt heildinni – ef ríkisstjórnin stæði með þeim. Veruleikinn er hins vegar sá að milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðar ríkir vantraust og á köflum algjör trúnaðarbrestur. Hin fræga samstilling þar sem allir róa í sömu átt í hagstjórninni er ekki markmið allra jafnt heldur reynir forystufólk atvinnulífsins eins og drukknandi maður að komast í land svo sáttin á vinnumarkaði lifi af 25 ára afmælið.
Er þá nóg fyrir formann verkalýðsfélags að lýsa varnarsigri? Hvaða kjör þarf hann að verja svo félagarnir sem kjósa um samningana segi já? Samanburðarstöðu við einhverja aðra á vinnumarkaði? Hvenær er verkfall fýsilegur kostur?
Hvað tókst að gera 1990?
Fyrir ári sömdu verkalýðshreyfing og atvinnurekendur á grundvelli þess sameiginlega skilnings að lág verðbólga væri höfuðmarkmið. Það markmið hefur náðst eins og allir vita, en samt hefur friðurinn glatast. Yfirlýsingar bæði Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands síðustu vikur hafa verið einstaklega gagnrýnar á samskipta- og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Margir spá meiri verkföllum en sést hafa í áratugi á almennum markaði.
Allir vita að þjóðarsáttarsamningarnir 1990 höfðu lykiláhrif til þess að kippa úr sambandi sífelldum vítahring launahækkana, verðbólgu og gengisfellinga.
Allir vita að þjóðarsáttarsamningarnir 1990 höfðu lykiláhrif til þess að kippa úr sambandi sífelldum vítahring launahækkana, verðbólgu og gengisfellinga. Gagn heildarinnar af þessari aðgerð var ótvírætt, það er aukinn kaupmáttur launafólks yfir línuna og heilbrigðara jafnvægi atvinnuveganna yfir línuna, því hagsmunir útgerðarinnar einir hættu að ráða öllu um gengi krónunnar. Auðvitað réðu líka miklu ytri aðstæður hagstjórnar ekki síst efnhagssramuninn við Evrópu.
Oft er þetta kallað að hafa „komið á stöðugleika" og sú klisja var mest notaði pólitískri frasinn öll árin sem hlóðu upp ójafnvæginu sem varð að hruninu. Þessvegna er klisjan úrelt. Sígildi lærdómurinn af hinni 25 ára þjóðarsátt er hins vegar að með snjallri sameiginlegri aðgerð er hægt að skilja við vondan arf fortíðar. Eins og þá var gert. Sú verðbólguvél kemur aldrei aftur en ójafnvægi verður til af öðrum völdum - nýrri vítahringum sem bíða þess að vera teknir úr sambandi af snjöllu samningsviljugu fólki.
Sú verðbólguvél kemur aldrei aftur en ójafnvægi verður til af öðrum völdum - nýrri vítahringum sem bíða þess að vera teknir úr sambandi af snjöllu samningsviljugu fólki.
Þjóðarsáttin 1990 skóp frið á vinnumarkaði, gagnkvæman skilning verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda á því hverju kjarasamningagerð gæti skilað í heildarsamhengi hagstjórnar í landinu. Og ríkisstjórnir spiluðu með. Þannig er orðið þjóðarsátt enn notað – um þann einfalda hlut að taka samninga fram yfir deilur enda sé það til skýrs ávinnings fyrir alla.
Viðjar vondra vana
Síðan eru liðin 25 ár með gjörbreytingu á samsetningu hagkerfisins, á rekstrarlegum tengslum fyrirtækja við útlönd í gegnum erlenda rekstrarmynt, eignarhald eða annað, gjörbreyttu hagstjórnarumhverfi íslenskra stjórnvalda og nýju óskýru heimsástandi. Allar þessar stórfelldu breytingar á aðstæðum verður að taka inn í myndina til að ná markmiðinu um nýjan frið.
Það er morgunljóst að þangað erum við ekki komin. Ólíkt ríkjum Norðurlanda sem endurskilgreindu hagstjórnarverkefni sín og aðferðir í kjölfar hrikalegra fjármálakreppa þar 1992-94 og búa að því fram á þennan dag, státar Ísland – sjö árum frá hruni – ekki enn af neinni snjallri grundvallarbreytingu í hagstjórn né skýrri nýrri stjórnmálasýn um það hvert Ísland vill komast.
Þetta skapar tómarúm og pópúlismi og öskrandi átök um aukaatriði tröllríða þjóðfélagsumræðunni í staðinn. Um þetta er rætt í öllum hornum samfélagsins, fólk notar mismunandi orð og kennir um ólíkustu aðilum eftir því hvar í liði það sjálft stendur en kjarni málsins er að Íslands óhamingju varð að vopni, ólíkt ríkjum Norðurlanda, að breyta fjármálakreppu í stjórnmála- og samfélagskreppu sem sér ekki fyrir endann á þótt árin séu orðin sjö. Fyrsta læknaverkfall sögunnar og váboðarnir á vinnumarkaði eru ein birtingarmynd af mörgum.
Hverjir vilja frið á vinnumarkaði?
Og þá er komið að mikilvægustu spurningunni og svarið við henni mun hafa mikil áhrif um langa framtíð á Íslandi: Hverjir vilja verja og viðhalda þessari friðarhefð og samvinnu á vinnumarkaði? Báðir formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa sagt opinberlega skýrt og skorinort að stjórnarstefna verði ekki ákveðin af aðilum vinnumarkaðar. Þeir halda sig í kaldri fjarlægð og myndin af þeim að fagna áföngum með aðilum vinnumarkaðar hefur enn ekki birst.
„Báðir formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa sagt opinberlega skýrt og skorinort að stjórnarstefna verði ekki ákveðin af aðilum vinnumarkaðar," segir Kristrún Heimisdóttir.
Vilji þeir verja og viðhalda friðarhefðinni hermir upp á þá að gera það öllum ljóst. Fram til þessa hafa skilaboðin verið skýr um að þeiri vilji veikja stöðu aðila vinnumarkaðar og þar með styrkja sína eigin. Þarna eiga þeir nokkra fyrirmynd í vinstristjórninni sem jafnvel miðstjórnarmenn í ASÍ töldu á endanum allt svíkja og atvinnurekendur upplifðu vítt yfir sem fjandsamlega. Þegar rykmökkurinn af bankahruni var sem þéttastur greindi AGS aðeins einn óbrotinn styrkleika í efnhagskerfi landsins og það var friðarhefðin á vinnumarkaði. Aldrei heyrði ég neinn vera ósammála því mati. Hverjir vilja verja og viðhalda friðarhefðinni?
Völdun hagsmuna heftir hagstjórnina
Hættan er sú að atvinnulífið hrökkvi í gamlar skotgrafir flokksbundinna hagsmuna, menn taki markvisst að sækja dúsur, sporslur og forréttindi til til handa einstökum sterkum fyrirtækjum eða eignablokkum og heildarsýnin gufi upp. Ríkisstjórnin býður aftur og aftur upp í slíkan dans ófeimin fyrir allra augum.
Báðir flokksformennirnir hafa dansað með völd sín handan vandaðra stjórnarhátta og gefið skýr sýnileg skilaboð um að vinir þeirra njóti forgangs og sérréttinda. Útboðsreglur, gegnsæ söluferli, úthlutunarreglur ríkisfjár láta menn ekki flækjast fyrir sér s.s. salan á Borgun, stuðningur við stjórnarformann FME, Norðvesturnefnd og óboðleg meðferð fjárlagaheimilda í forsætisráðuneyti sýna glöggt og feimnislaust. Fagráðherrar sinna atvinnuvegum á hefðbundinn hátt og ýmsir ágætlega en forysta ríkisstjórnar virðir ekki hefð þjóðarsáttarinnar. Það þýðir að við mótun og framkvæmd hagstjórnarstefnunnar kærir ríkisstjórnin sig ekki um þá meginstoð sem þjóðarsáttarmódelið – þríhliða samstarf á vinnumarkaði er.
Forsætisráðherra nýtti hvorki ársfundi Viðskiptaráðs né SA 2014 til að svara ákalli atvinnulífsins um heildstæða framtíðarsýn. Ekki heldu félagsmálaráðherra á ársþingi ASÍ.
Hvernig á að lýsa markmiðum og framkvæmd hagstjórnarstefnu Íslands sjö árum eftir hrun? Forsætisráðherra nýtti hvorki ársfundi Viðskiptaráðs né SA 2014 til að svara ákalli atvinnulífsins um heildstæða framtíðarsýn. Ekki heldu félagsmálaráðherra á ársþingi ASÍ. Á haustmánuðum fylltu áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum, bankakerfinu og aðdáendur Viðreisnarstjórninnar hátíðarsal Háskóla Íslands á minningarfyrirlestri um Jónas Haralz. Aðalræðumaðurinn Bjarni Benediktsson talaði um afnám hafta án eldmóðs, ástríðu eða nýrra hugmynda. Það var eins og engum tíma né hugsun hefði verið varið til að semja ræðuna af hans fólki. Undarlega slæm nýting á gullnu tækifæri til að marka framtíðarsýn fyrir hóp sem var kominn til að heyra hana.
Hagstjórnarstíllinn er sjálfur í höftum innri átaka í ríkisstjórninni og stöðubaráttu hagsmunafla að baki henni. Tíminn sem liðinn er við undirbúning afnáms hafta var í raun tíminn sem þurfti til að þreyta Framsóknarmenn í boxhringnum. Hnefaleikakeppni fór einnig fram á Arnarhóli milli liða fjármála-, forsætisráðuneytis og Seðlabankans um bankastjórann. Mjög langdregin þar til forseti Íslands dæmdi tæknisigur.
Aðilar vinnumarkaðar hafa heildstæðari sýn
Hvert stefnir Ísland? Hvað er hægt að gera til að semja nýjan frið á vinnumarkaði.
Fyrsta augljósa skilyrðið er að almenningur geti séð og fundið að gerðir samningar gagnist heildinni – og sjálfum sér þar með. Til þess þarf heildstæða stefnu sem vekur nægt traust til að félagslega ábyrgt fólk geri málamiðlanir og semji. Til þess þarf mikinn styrk og oft persónulega áhættu. Ágjöfin getur orðið brotsjór og aðfarir óvægnar,
Ytri aðstæður í heiminum hafa að ýmsu leiti hjálpað íslensku hagkerfi. Makríll og túristar komu og olíuverðslækkun hjálpar. Hagvöxturinn sem hófst strax 2010-11 hefur á dularfullan hátt horfið af mælum Hagstofunnar. Hið eina sem allir slá föstu er að hann er sannarlega minni sem spáð var. Heilt yfir er Ísland ekki búið að vinna úr hruninu, hefur þó náð markverðum bata en bæði ytri og innri áhættur krefjast snjallrar, samhæfðrar festu í hagstjórn þar sem allir róa í sömu átt.
Síðustu misseri hefur það tekið á sig verstu einkenni Icesave-afgreiðslunnar þ.e. leynd og áróðursstríð.Það væri heilbrigðara umhverfi og líklegra til afreka fyrir íslenska hagsmuni ræða markmiðin opið og heiðarlega við þjóðina.
Tengsl við útlönd eða með öðrum orðum þær samningaviðræður sem nú eru hafnar við erlenda kröfuhafa og stjórnaraðgerðir þar um t.d. lagasetning um útgönguskatt er krefjandi verkefni sem mun hafa áhrif á stöðu landsins um langa framtíð. Síðustu misseri hefur það tekið á sig verstu einkenni Icesave-afgreiðslunnar þ.e. leynd og áróðursstríð.Það væri heilbrigðara umhverfi og líklegra til afreka fyrir íslenska hagsmuni ræða markmiðin opið og heiðarlega við þjóðina.
Aðilar vinnumarkaðar og Viðskiptaráð stóðu á fordæmalausan hátt öll saman að gerð skýrslu um stöðu aðildarviðræðna við ESB á árinu og hvöttu skýrt og ákveðið til þess að samningaviðræðum yrði lokið. Um leið og ríkisstjórnin læsir á þessa umræðu fæst heldur ekki rædd framtíð gjaldmiðils né utanríkisverslunar og hið tvöfalda hagkerfi stórfyrirtækja sem starfa í Evrum og almennings sem gerir það ekki heldur áfram að grafa undan jafnvægi á vinnumarkaði. Læknaverkfallið er forboði þess sem koma skal.
Aðilar vinnumarkaðar hafa sameiginlegan skilning á fleiri þáttum hagstjórnarinnar og framtíðarstefnu landsins en þeir tveir flokkar sem sitja saman í ríkisstjórn. Flokkarnir tveir hafa hins vegar formgert ríkisvald í sinni hendi og sýna skýrt að beiting þess muni ekki einkennast af samvinnu og samráði heldur valdstjórn. Jafnvel Morgunblaðið hefur oft á síðustu mánuðum oft föðurlega óskað þess að óreyndir ráðherrar sýni meira öryggi í beitingu ríkisvaldsins en hrasi sjaldnar. Furðu erfiðlega hefur gengið að koma ákvörðunum til réttrar framkvæmdar.
Ríkar væntingar um að á atvinnulífið yrði hlustað
Samráðsvettvangur stjórnvalda sem settur var á stofn á grundvelli McKinsey skýrslunnar skapaði ríkar væntingar atvinnulífsins um að á það yrði hlustað og vönduðum vinnubrögðum beitt til að skapa nýjar lausnir og tækifæri á Íslandi og losna undan vondum fortíðararfi. Íslenski hópurinn sem stóð að skýrslunni tók alvarlega reynslu sína sem ráðgjafar stjórnvalda í hruninu og gengu hreint til verks. Það raskaði ró nokkurra heilagra kúabúa og staðreyndin er að vettvangurinn er fótalaus og lamaður. Alltof framsækin og heildstæður fyrir hagsmunaaðila að baki ríkisstjórninni.
Annað fótalaust risafyrirbæri sem ógnar stöðu ríkisfjármála og lamar mörkun húsnæðisstefnu í landinu er Íbúðalánasjóður. Þar er enginn dans því stjórnarstefnan nær ekki að móta eitt danspor hvað þá fleiri.
Fjárfesting í innviðum samfélagsins liggur niðri. Engar stofnframkvæmdir í vegakerfinu eru enn farnar af stað. Heilbrigðiskerfið er kvíðavaldur almennings. AGS segir ríkisstjórninni í splunkunýrri skýrslu að tímabært sé að huga að fjárfestingu og uppbyggingu innviða. Hvernig verður það gert?
Brúarsmiðir
Morgunljóst er að óbreyttur stíll og stefnumið ríkisstjórnar felur í sér að friði á vinnumarkaði er fórnað. Brúarsmiðir eru ekki studdir heldur brúarstólpunum sparkað. Ef ríkisstjórnin telur markmiðum sínum betur borgið með ófriði á vinnumarkaði setur það markmið hennar undir skarpa smásjá. Gengur það verkefni fyrir að raða rétt upp persónum og leikendum með aðgang að stöðu og völdum? Stjórnmálaflokkar ráða sem slíkir ekki við algert forræði á hagstjórn í nokkru landi. Enda tíðkast slíkt kerfi hvergi nema í ófrjálsum frumstæðum einræðisríkjum.
Síðasta vor átti ég mjög eftirminnilegar samræður yfir málsverði með framkvæmdastjórum atvinnurekendasamtaka í Skandínavíu. Fátt fólk - opið og einlægt samtal. Norræna módelið er í stórkostlegri hættu sögðu allir. Frjálslynt stjórnarfar opinna viðskipta er í stórkostlegri hættu. Við vorum stödd í Kaupmannahöfn þar sem þjóðernispópúlistar geistust fram í Evrópukosningum. Í Noregi var Framfaraflokkurinn kominn í stjórn. Í Svíþjóð stefndi í fall hægristjórnar vegna framsóknar Svíþjóðardemókrata. Þetta voru ekki samræður um venjulega pólitík á venjulegum tímum heldur stöðumat og samanburður á ógnum við farsæla skipan samfélaga á Norðurlöndum. "Við hefðum aldrei trúað að hingað yrðum við komin" var sagt aftur og aftur.
Allt hefur þetta fólk beitt sér af krafti til að verja frið á vinnumarkaði og þríhliða módelin fela í öllum ríkjum Norðurlanda í sér mun tempraðra vald ríkisstjórna en hér tíðkast. Margar heimildir segja frá Bo Lundgren sem var fjármálaráðherra hægristjórnarinnar í sænsku bankakreppunni og fékk í heimsókn fulltrúa eins stærsta bankans og vildi sá fyrirgreiðslu vegna flokkstengsla. Bo Lundgren svaraði að þessi vandi hans kæmi sér ekki við.
Góð kerfi geta skapað sigra
Friður á vinnumarkaði byggist á kerfi sem andstæðar fylkingar gangast inn á að treysta fyrir æðri hagsmuni heildarinnar. Svar Bo Lundgrens er einkennandi fyrir stjórnkerfi sem uppfyllir það hlutverk að hagstjórn sé ávallt fyrir heildina.
Á Íslandi er meira að segja orðið kerfi nánast skammaryrði og stjórnkerfið oft óvarið fyrir flokkadráttum og liðsskiptingu. Þetta útilokar árangur.
„Sigur Íslands á Hollandi á Laugardalsvelli í haust var einstæður og stórsögulegur atburður ekki af því að sigurinn vannst heldur hvernig hann vannst," segir Kristrún Heimisdóttir.
Sigur Íslands á Hollandi á Laugardalsvelli í haust var einstæður og stórsögulegur atburður ekki af því að sigurinn vannst heldur hvernig hann vannst. Því réð hvorki heppni né dagsform, ekki einstaklingsrispur, brottrekstrar, gróf brot, fautaskapur né vont veður. Sigurinn vannst á þaulhugsuðu og frábærlega framkvæmdu leikskipulagi – kerfi sem íslenska liðsheildin fylgdi af fullkomnum aga og leikgleði. Hver leikmaður skildi hlutverk sitt og uppfyllti það jafnt í vörn og sókn.
Hógværi tannlæknirinn Heimir Hallgrímsson úr Vestmannaeyjum veitti forystu íslensku liði með sænskan kerfisstjóra og þeir sigruðu sjálfa höfunda total football, þriðju sterkustu knattspyrnuþjóð heims – á leikkerfinu.
Gengu svo af velli eins og ekkert hefði gerst í fullvissu um að Ísland geti verið í heimsklassa ef það vill.