Hvað er til ráða þegar persónuleg sannfæring manns stríðir gegn landslögum? Ung frönsk kona af pakistönskum uppruna taldi sig standa frammi fyrir þessu vandamáli eftir að lög voru sett í Frakklandi sem banna fólki að hylja andlit sitt á almannafæri. Einungis tvennt væri í stöðunni; að klæða sig í samræmi við eigin trúarsannfæringu, sem fæli í sér brot á landslögum Frakklands, eða að fara að landslögum Frakklands en gegn eigin trúarsannfæringu sem þó er varin með ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Konan taldi lögin brjóta gegn mannréttindasáttmálanum og fór með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Dómstóllinn komst svo nýverið að niðurstöðu um að hin frönsku lög standist Mannréttindasáttmála Evrópu.
Bannið, sem í daglegu tali er kennt við búrkur, vakti heimsathygli þegar það var samþykkt með miklum meirihluta á franska þinginu árið 2010. Aðallega vegna þess það beinist leynt og ljóst að klæðnaði ákveðinna hópa múslimakvenna. Bannið er þó almennt og lögin skírskota ekki sérstaklega til trúarbragða. Þannig er óleyfilegt að hylja andlit sitt á almannafæri, hvort sem það er gert með lambhúshettu, grímu eða slæðu svo dæmi séu nefnd, nema í ákveðnum undantekningartilvikum. Andstæðingar laganna halda því fram að lögunum sé beint sérstaklega gegn múslimum og að þau skerði trúfrelsi kvenna sem kjósi að hylja andlit sitt af trúarástæðum. Af þeim sökum hefur því verið haldið fram að lögin skerði meðal annars trúfrelsi og brjóti þannig gegn þeim grundvallarmannréttindum sem Mannréttindasáttmála Evrópu er ætlað að tryggja.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_24/37[/embed]
Konan sem klæðist búrku
Konan sem höfðaði málið gegn franska ríkinu er ekki nefnd á nafn í dómnum. Hún er múslimi og gengur reglulega í búrku sem hylur hana bókstaflega frá toppi til táar, eða níkab, sem hylur allt, að augunum undanskildum. Konan sagðist klæðast umræddum flíkum vegna trúarlegrar-, menningarlegrar og persónulegrar sannfæringar sinnar. Hún lagði frá upphafi málsins skýra áherslu á að hún klæddist búrku, eða níkab, af fúsum og frjálsum vilja og að enginn, hvorki fjölskylda né eiginmaður hennar, neyddi hana til þess. Konan gerði enga kröfu um að hún fengi alltaf að hylja andlit sitt. Þvert á móti tók hún fram að hún myndi viljug sýna andlit sitt ef nauðsyn bæri til, svo sem við öryggisleit á flugvöllum eða í bönkum.
Mannréttindadómstóll Evrópu skoðaði einkum hvort lögin takmörkuðu friðhelgi einkalífs og fjölskyldu eða hugsana-, samvisku- og trúfrelsi auk þess sem dómstóllinn skoðaði hvort lögin fælu í sér mismunun á grundvelli þessara atriða.
Hulið andlit var talið skerða rétt annarra borgara
Það var niðurstaða dómstólsins að lögin fælu í sér takmarkanir á réttindum konunnar. Dómstóllinn þurfti því að taka afstöðu til þess hvort skerðingin væri í samræmi við heimildir mannréttindasáttmálans. Ógerningur er að mæla raunverulega trúarsannfæringu einstaklinga og því er niðurstaðan, eðli málsins samkvæmt, byggð á lögfræðilegu mati.
Réttlætanleg takmörkun
Ákveðin skilyrði þurfa að vera fyrir hendi svo takmörkun á mannréttindum teljist réttlætanleg í skilningi mannréttindasáttmálans. Til dæmis þarf að kveða á um réttindaskerðinguna í lögum og takmarkanirnar þurfa að tengjast lögmætu markmiði stjórnvalda, auk þess sem þær verða að teljast nauðsynlegar í lýðræðislegu samfélagi til að ná settu marki. Þetta er flókið og oft umdeilt mat þar sem samfélagsleg og jafnvel söguleg greining blandast inn í hið lögfræðilega mat. Þá bætist við að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur játað aðildarríkjum mannréttindasáttmálans mjög ríkt mat á því hvernig þau telja að best sé að framfylgja stefnumálum sínum í samræmi við sáttmálann.
Í búrkumálinu var meðal annars tekist á um hvert markmiðið væri með lögunum og komu tvenns konar markmið þar aðallega til skoðunar; hvort lögin væru nauðsynleg vegna almannaheilla eða vegna réttinda annarra borgara. Frakkland hélt því t.d. fram að bannið væri nauðsynlegt til að tryggja öryggi almennings á opinberum stöðum því erfitt væri að bera kennsl á manneskju sem hylur andlit sitt. Dómstóllinn féllst ekki á þessa málsástæðu franska ríkisins en féllst að hluta til á þá málsástæðu Frakklands að bannið væri nauðsynlegt til að tryggja lýðræðisleg gildi í samfélaginu. Þannig féllst dómstóllinn á að bannið væri nauðsynlegt til að tryggja lágmarkskröfur um „sambúð borgaranna í samfélaginu.“ Þetta verður að teljast áhugaverð niðurstaða en dómstóllinn leit til þess hve ásjóna manna væri mikilvæg í frönsku samfélagi þar sem fólk meti aðstæður oftar en ekki út frá svipbrigðum nærstaddra. Dómstóllinn taldi andlitið vera svo mikilvægt í mannlegum samskiptum í Frakklandi að borgararnir ættu beinlínis rétt á því að sjá andlit annarra á almannafæri. Þar af leiðandi bryti hulið andlit manns gegn réttindum annarra sem staddir væru í sama almenningsrými. Þarna má segja að dómstóllinn hafi fallist á að veita Frakklandi ansi víðtækar heimildir til að framfylgja mjög illskilgreinanlegu markmiði. Dómstóllinn ítrekaði að niðurstaðan byggðist fyrst og fremst á þeirri staðreynd að umrædd lög bönnuðu fólki að hylja andlit sitt á almannafæri og að niðurstaðan væri ekki á neinn hátt tengd trúarskoðunum né afstöðu til trúarlegs klæðnaðar. Þvert á móti væri nauðsynlegt að standa vörð um fjölbreytileikann í lýðræðislegu samfélagi.
Frönsk arfleið?
Eflaust hefur dómstóllinn nokkuð til síns máls en því er ekki að neita að lögin sem sett voru í Frakklandi eiga rætur að rekja til umræðu um íslamsvæðingu landsins. Þá eru háværustu fylgismenn bannsins þeir sem telja það nauðsynlegt til þess að varðveita franska arfleið og takmarka íslömsk áhrif. Sjálfur Nicolas Sarkozy sagði árið 2009, er hann var forseti Frakklands, að búrkur væru ekki velkomnar í landinu. Talið er að um 5-10% Frakka séu múslimar en samkvæmt frönskum lögum er bannað að aðgreina fólk eftir trúarbrögðum. Þar af leiðandi eru ekki til nákvæmar tölur yfir fjölda múslima í Frakklandi. Aðeins lítill meirihluti múslimakvenna kýs þó að hylja andlit sitt og eru skiptar skoðanir um hvort slíkt sé trúarlegs eða menningarlegs eðlis. Áætlað er að um 2.000 konur hafi reglulega klæðst búrku, eða níkab, á almannafæri um það leyti sem bannið var samþykkt árið 2010. Það verður að teljast mikill minnihluti í landi sem telur rúmar 66 milljónir. Svo á eftir koma í ljós hvort bannið verði til þess að umræddar konur brjótist úr viðjum hefðanna og hætti að hylja andlit sitt eða hvort bannið hafi þveröfug áhrif þannig að þessi hópur kvenna muni hætta að fara út meðal almennings og einangrast þannig algerlega frá samfélaginu.