Samkvæmt frásögnum fjölmargra einstaklinga um atburðina á Laugalandi virðist kerfisbundið ofbeldi hafa þrifist þar á árabilinu 2000-2007. Sögurnar eru sláandi og lýsa meðferðaraðferðum sem eiga alls ekki að geta átt sér stað. Eftirlit með meðferðarheimilum var á þeim tíma í höndum Barnaverndarstofu. Þáverandi forstjóri hennar, Bragi Guðbrandsson, var ef marka má fjölmiðlaumfjöllunina um Laugaland, fyllilega meðvitaður um marga af atburðunum sem frásagnir þolendanna byggja á. Eftir að hafa fylgst með öllu fólkinu sem hefur stigið fram á undanförnum árum og sagt frá hvernig Barnaverndarstofa brást þeim, til dæmis þeim hugrökku konum sem á unglingsaldri dvöldu á Laugalandi, hef ég ákveðið að feta í þeirra fótspor og skila skömminni, sem ég hef burðast með alltof lengi, þangað sem hún á heima; til stjórnvalda.
Fyrir 12 árum síðan varð ég fyrir alvarlegri valdníðslu af hálfu Barnaverndarstofu, sem þá var undir forystu Braga Guðbrandssonar. Götusmiðjunni, meðferðarheimili sem ég hafði veitt forstöðu um langt árabil, var þá lokað án nokkurs fyrirvara, undir þeim formerkjum að forstjóra Barnaverndarstofu hefði borist til eyrna að ég hefði hótað skjólstæðingum mínum. Það voru alvarlegar ásakanir sem áttu ekki við nein rök að styðjast. Bragi ræddi þær aldrei við mig og ég fékk ekkert tækifæri til að verjast þessum rógburði. Kerfið var búið að ákveða sig. Götusmiðjan var búin að vera.
Leiksýning fáránleikans
Föstudagsmorguninn 9. júlí 2010 setti íslenska kerfið upp leiksýningu fáránleikans fyrir opnum tjöldum á hlaðinu að Efri Brú í Grímsnesi þar sem Götusmiðjan var til húsa. Þennan morgun var ég á fundi í Reykjavík og átti mér einskis ills von þegar síminn hringdi. Góður félagi minn hafði heyrt í útvarpsfréttum RÚV að yfirvöld væru að flytja skjólstæðinga Götusmiðjunnar af staðnum og loka starfseminni vegna gruns um að forstöðumaður heimilisins (ég) hefði hótað ungmennunum ofbeldi daginn áður? Þvílík firra. Einhverra hluta vegna vissi fréttastofa RÚV að þetta stæði til og mætti á staðinn með yfirvöldum til að flytja landanum fréttir, allt að því í beinni útsendingu, af þessari aðför. Ég aftur á móti vissi ekki neitt.
Að sýningu lokinni
Múgæsingin sem fylgdi, í boði íslenska barnaverndarkerfisins, var skelfileg. Ég var úthrópaður sem ofbeldismaður. Fólk veittist að mér á götu og jafnvel hrækti á eftir mér. Það tók svo steininn úr að ungmennunum, foreldrum þeirra og starfsfólki mínu var veitt áfallahjálp á vegum Barnaverndarstofu strax í kjölfar aðfararinnar. Gátu meintu orð mín virkilega hafa haft svona djúpstæð sálræn áhrif á fólk? Kannski, en það blasir við að auðvitað hljóta allir sem voru á staðnum þennan örlagaríka föstudagsmorgun að hafa orðið óttaslegnir þegar rúta á vegum yfirvalda birtist upp úr þurru í hlaðinu á Efri Brú. Það vissi engin í Götusmiðjunni hvað stóð til (nema hugsanlega vinir Braga á meðal starfsfólks). Miðað við moldviðrið og lætin sem fylgdu þessu harkalegu inngripi í líf ungmenna sem voru fjarlægð í skyndi úr sínu tímabundna öryggi, af sínu meðferðarheimili, þá er ekkert skrýtið að þau hafi orðið skelfingu lostin. Viðstaddir vissu ekki frekar en ég að þarna yrði lífi okkar allra, bæði skjólstæðinga og starfsfólks, snúið á hvolf í boði yfirvalda. Meðferðarheimilið okkar var ekki lengur til.
Kerfið sér um sína
Ég reyndi allt sem ég gat til að bjarga Götusmiðjunni svo meðferðarúrræðið sem þar var boðið upp á gæti haldið áfram, með eða án mín. Ég bauðst til að stíga til hliðar sem forstöðumaður meðan þetta mál væri krufið til mergjar. Ég fór fram á við þáverandi félagsmálaráðherra, Árna Pál Árnason að hann kæmi að málinu. Ráðherrann svaraði aldrei fyrirspurnum mínum. Ég óskaði eftir því að ég yrði kærður til lögreglu svo formleg rannsókn yrði gerð á hvort ég hefði raunverulega hótað unglingunum sem dvöldu í Götusmiðjunni ofbeldi. Þegar því var ekki sinnt, óskaði ég eftir því sjálfur við lögregluna að málið yrði rannsakað. Allt kom fyrir ekki, ég fékk hvergi áheyrn.
Það lá samt alveg fyrir að ásökun sem byggði á svo veikum grunni þarfnaðist frekari rannsóknar á grundvelli stjórnsýslulaga áður en nokkuð annað væri gert. Ef ég hefði raunverulega hótað skjólstæðingum mínum ofbeldi þá hefði það verið brot á hegningarlögum, sem hefði krafist rannsóknar lögreglu. Enginn, hvorki foreldrar ungmennanna sem í hlut áttu, barnaverndarnefndirnar né þáverandi forstjóri Barnaverndarstofu lögðu nokkru sinni fram kæru um að ég hefði hótað skjólstæðingum mínum. Yfirmenn Barnaverndarstofu töldu engu að síður að málið væri nægjanlega upplýst til að taka ákvörðun um að loka starfsemi Götusmiðjunnar fyrirvaralaust!
Réttmætt eða valdníðsla?
Þarna brást stjórnsýslan mér og Götusmiðjunni gersamlega og sýndi fullkomið vanhæfi í að fylgja eigin reglum. Rannsóknarheimildir á meintum hegningarlagabrotum eru nefnilega eingöngu í höndum lögreglu, þótt eftirlitsskylda sé í höndum stjórnvalds. Um er að ræða gerólíka hluti, sem hafa þá þýðingu að stjórnvaldi ber á grundvelli eftirlits að upplýsa, og kæra, til lögreglu ef grunur um hegningarlagabrot liggur fyrir. Það var ekki gert í þessu tilfelli, heldur studdist Bragi Guðbrandsson eingöngu við orðróm sem honum hafði borist til eyrna og án þess að kanna það frekar beitti hann valdi sínu einhliða til að kæfa starfsemi Götusmiðjunnar með vísan í vanefndir á þjónustusamningi við Barnaverndarstofu, innan við sólarhring eftir að meint orð voru látin falla og þeim snúið upp í rógburð gegn mér. Ég bara spyr, hvernig komust stjórnvöld upp með að beita valdníðslu af þessari stærðargráðu og kerfið allt lét það viðgangast?
Það fór aldrei hátt, en stuttu eftir lokun Götusmiðjunnar reyndu einhver af þeim ungmennum sem voru í meðferð þegar aðförin átti sér stað að leiðrétta rangtúlkanir barnaverndarnefndanna sem tóku þátt í lokuninni með Barnaverndarstofu. Ég veit ekki til þess að kerfið hafi tekið mark á þeim. Reyndar hefur sumt starfsfólk barnaverndarnefndanna frá þessum tíma haft samband við mig, beðið mig afsökunar á aðkomu sinni að lokuninni, og sagst hafa verið stýrt áfram af ákafa Braga, þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu. Ég sat engu að síður áfram eftir með Svarta Pétur.
Útskúfun og illt umtal
Ég reyndi að bera höfuðið áfram hátt og svara heiminum fullum rómi, en niðurlægingin og uppgjöfin innra með mér var algjör. Skömmin yfir því að vera úthrópaður er lúmsk og sjálfsefinn læðist hægt og bítandi í sálina. Ég reyndi að forðast fólk og fannst allir sem ég hitti horfa á mig ásakandi augum og dæma mig sekan um eitthvað sem ég gerði ekki. Sem margir reyndar gerðu í raun. Ég reyndi fljótlega að finna mér nýja vinnu en svarti bletturinn sem kerfið klíndi á mig fylgdi mér hvert sem ég fór og ég fékk lengi vel hvergi ráðningu. Eftir á að hyggja sé ég að ég varð fyrir gríðarlegu tilfinningalegu áfalli þennan örlagaríka föstudagsmorgun og það var aðeins fyrir nokkrum mánuðum að ég áttaði mig á að ég hef glímt við áfallastreituröskun síðan. Ég áttaði mig líka á því að einhverra hluta vegna hef ég burðast áfram með þessa skömm og leyft henni að hafa áhrif á líf mitt. Einhvers staðar hafði búið um sig nöpur rödd sem á vondum dögum hvíslaði að mér að kannski hefði ég bara átt þetta skilið. Það er komið nóg. Ég varð fyrir valdníðslu af hálfu stjórnvalda og sat í kjölfarið uppi með skömm sem ég átti ekkert í. Hér með skila ég skömminni þangað sem hún á heima, til barnaverndaryfirvalda þess tíma og þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu.
Hvers vegna gerðist þetta?
Síðustu árin hef ég oft velt fyrir mér hvað hafi eiginlega verið að baki þessari aðför Braga, þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu að starfsemi Götusmiðjunnar. Af hverju lokaði hann vel reknu meðferðarúrræði sem var að virka afar vel og var hlutfallslega mjög ódýrt miðað við önnur úrræði sem stóðu til boða á þessum tíma fyrir ungmenni í vanda? Ýmislegt gæti legið að baki. Fyrst ber að nefna rekstrarformið. Á þessum tíma var vinstri stjórn stuttu áður tekin við völdum eftir hrunið. Almenn tortryggni ríkti í garð einkaframtaksins. Götusmiðjan var jú einkarekið fyrirtæki (ekki hagnaðardrifið þó) með þriggja ára þjónustusamning við stjórnvöld og þeim samningi var ekki hægt að rifta nema vegna vanefnda. Kannski vildu stjórnvöld einfaldlega losna við okkur og byggja þess í stað upp ríkisþjónustu sem stýrt væri miðlægt?
[adsspot]Annað gæti verið að nokkrum vikum áður en þetta gerist hafði forstjóri Barnaverndarstofu gert drög að samningi við mig um að ég stigi til hliðar og hans stofnun tæki við rekstrinum. Okkur hafði samist um að ég fengi 6 mánaða biðlaun við starfslok, en rekstur, eignir og skuldir Götusmiðjunnar rynnu til ríkisins. Við sömdum um að starfsfólk á hans vegum myndi koma inn í reksturinn svo breytingin yrði eins auðveld og hægt væri. Þannig var staðan þegar yfirvöld, með Braga í forsvari, ákváðu að loka starfseminni án nokkurs fyrirvara. Hann sendi mér reyndar aldrei lokaeintakið af þessum samningi til undirritunar. Af hverju veit ég ekki. Kannski hafði hann gleymt að ræða þessa lausn fyrst við ráðherrann sinn? Kannski hafði hann gleymt að stofnunin hans átti að skera starfsemi sína niður á þessum tíma, ekki bæta við hana?
Kannski var Braga einfaldlega bara illa við mig og vildi losna við þennan síðhærða tattóveraða mótorhjólagaur sem hann hafði enga stjórn á, út úr sínu vinnuumhverfi? Ég fæ eflaust aldrei nein svör við þessum spurningum en það breytir því ekki að allt þetta mál lyktar af óvandaðri stjórnsýslu og hreinni og klárri valdníðslu.
Hvað þóttist tattóveraði kvikmyndagerðarmaðurinn vita?
Ég veit að ég var ekki þægur við kerfið, sagði óþægilega hluti upphátt hvenær sem mér þótti þurfa og innleiddi nýja og, fyrir suma, framandi aðferðafræði inn í meðferðarstarfið, ásamt nokkrum sérfræðingum á sviði velferðarmála. Barnaverndarkerfinu líkaði ekki endilega mjög vel við mig, enda var ég ekki hluti af sérfræðingaveldi þess, heldur kvikmyndagerðarmaður. Ég hafði samt eitt sem margir aðrir sem störfuðu í þessu umhverfi höfðu ekki; djúpan skilning á líðan ungmenna í vanda. Ég hafði nefnilega sjálfur verið á vondum stað sem ungur maður og ásamt hóp af flottu fólki hannaði ég nýtt meðferðarúrræði sem hefði virkað fyrir mig á sínum tíma. Flóknara var það ekki.
Þó ég hefði oft hátt og pirraði kerfið stundum fram úr hófi, þá sýndu úttektir sem Barnaverndarstofa gerði á starfsemi Götusmiðjunnar alltaf mjög jákvæðar niðurstöður meðferðastarfsins sem var rekið þar og drógu ítrekað fram að ungmennunum leið almennt vel á meðan dvölinni stóð. Þetta má glögglega sjá, til að mynda, í samantektarskýrslu Barnaverndarstofu frá 2012 og rannsóknaskýrslu frá árinu 2012 sem unnin var fyrir Barnaverndarstofu af Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd.
Meðferðarnálgunin okkar virkaði semsagt afar vel!
Allir eiga skilið gott líf
Ásmundur, þú hefur sagt að þér sé annt um börn þessa lands og viljir búa þeim eins góðar aðstæður og stjórnvöld geta haft áhrif á að byggja upp. Þú átt erfiða reynslu úr þinni barnæsku og ég fagna því mjög að þú viljir breyta kerfinu, börnunum til hagsbóta. Ég deili þessari sýn með þér og helgaði stóran hluta starfsævi minnar í að aðstoða ungmenni sem höfðu lent undir í lífinu. Minn drifkraftur var að mig langaði að hjálpa þeim til að fóta sig á ný og ná að eignast bjarta framtíð, eins og allt fólk á rétt á. Ég gat snúið við blaðinu á sínum tíma og vissi að með réttu atlæti gætu þau gert það líka. Aldrei hótaði ég nokkru þeirra ofbeldi, þvert á móti reyndi ég að gera allt sem ég gat til að koma samfélaginu í skilning um að við þyrftum að gera betur fyrir börnin okkar og búa þeim örugga framtíð.
Óháð rannsókn er það sem þarf
Við verðum að geta treyst því að allar ákvarðanir stjórnvalda séu byggðar á traustum upplýsingum, vinnubrögð séu vönduð og gagnsæ og allir ferlar stjórnsýslunnar séu virtir. Það voru ekki vinnubrögð yfirvalda þegar Götusmiðjunni var lokað. Okkur sem samfélagi ber skylda til að tryggja að það gerist aldrei aftur, þá sérstaklega ekki í tilfelli eins og Götusmiðjunnar þar sem skjólstæðingarnir voru viðkvæm ungmenni í meðferð að taka á sínum fíknivanda. Ég hér með skora því á þig Ásmundur að þú, í krafti þíns embættis, takir mál Götusmiðjunnar upp og látir óháða aðila rannsaka hvernig staðið var að fyrirvaralausri lokunar Götusmiðjunnar að morgni föstudags þann 9. júlí 2010 og hvort aðförin hafi undir einhverjum kringumstæðum átt rétt á sér. Stjórnvöld þurfa líka að læra af sínum mistökum og ég tel að þarna sé afburða gott tækifæri fyrir þig til að láta skoða það sem fór aflögu og jafnvel biðja hlutaðeigandi afsökunar.
Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.