Það er áhyggjuefni hvernig stjórnarmeirihluti Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur umgengist Ríkisendurskoðun undanfarna mánuði.
Ríkisendurskoðandi er sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og ákveður sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu. Hann er kosinn af Alþingi og trúnaðarmaður þess. Þetta kemur skýrt fram í lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.
Þessa stjórnskipulegu stöðu embættisins verða þingmenn og ráðherrar að virða.
Þann 27. janúar síðastliðinn bárust fréttir af því að þáverandi ríkisendurskoðandi hefði verið fluttur til nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis og skipaður þar ráðuneytisstjóri á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Ég gagnrýndi tilfærsluna harðlega á Alþingi þann 1. febrúar síðastliðinn og benti á að lög gerðu ekki ráð fyrir að embættismenn hjá sjálfstæðum eftirlitsstofnunum væru ferjaðir af vettvangi löggjafans og yfir til framkvæmdarvaldsins með þessum hætti.
Sama dag sendi umboðsmaður Alþingis ráðherra fyrirspurnarbréf og benti á að ríkisendurskoðandi heyrir lagalega undir Alþingi, er sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og stendur utan stjórnkerfis framkvæmdarvaldsins þegar litið er til þrískiptingar ríkisvalds, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Í ljósi aðkomu Alþingis að flutningnum ákvað umboðsmaður síðar að fella niður athugun sína, enda tekur eftirlitshlutverk umboðsmanns ekki til starfa Alþingis.
Við, ellefu þingmenn úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar, höfum nú lagt fram frumvarp til að bregðast við þessu og teljum að sett hafi verið hættulegt fordæmi sem ógni sjálfstæði eftirlitsstofnana sem starfa á vegum þingsins. Ef 36. gr. starfsmannalaga er túlkuð með þeim hætti að ráðherra og þingforseti geti kastað á milli sín embættismönnum sem gegna eftirlitshlutverki á vegum Alþingis, umboðsmanni Alþingis og ríkisendurskoðanda, þá missa embættin þá vernd sem þeim á að vera tryggð til að sjálfstæði þeirra sé hafið yfir allan vafa. Ráðherra og þingforseti geta þá í krafti meirihlutaræðis flutt ríkisendurskoðanda til í starfi telji þeir störf hans ganga gegn hagsmunum ríkisstjórnar á hverjum tíma.
Vegna flutningsins á embættismanninum sem gegndi hlutverki ríkisendurskoðanda er nú uppi sú staða að ekki er starfandi neinn ríkisendurskoðandi sem hlotið hefur kosningu Alþingis – og það er undir þessum kringumstæðum sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kallar sérstaklega eftir því að salan á Íslandsbanka verði gerð upp með stjórnsýsluúttekt af hálfu Ríkisendurskoðunar.
Í lögum um ríkisendurskoðanda er að finna skýr ákvæði um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis geti að eigin frumkvæði eða samkvæmt tillögu sem henni berst farið fram á að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um einstök mál eða málaflokka sem falla undir starfssvið hans. Hið sama gildir ef níu þingmenn óska eftir skýrslu ríkisendurskoðanda í þingsal. Í lagatextanum er hins vegar ekki að finna nein skýr ákvæði um að ráðherra eða ráðuneyti geti óskað eftir því að ríkisendurskoðandi taki mál til athugunar.
Fjármála- og efnahagsráðherra sendi Ríkisendurskoðun bréf þann 8. apríl þar sem þess er farið á leit við stofnunina að hún kanni og leggi mat á hvort salan á Íslandsbanka hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Í svarbréfi Ríkisendurskoðunar kemur fram að stofnunin hafi „ákveðið að verða við framangreindri beiðni sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga“.
Lagaákvæðið sem þarna er vísað til er gjaldtökuheimild en orðrétt segir í 2. mgr. 8. gr. laganna: „Þegar sérstaklega stendur á og nauðsynlegt er að ríkisendurskoðandi skoði eða geri úttekt á meðferð ríkisfjár í tilteknu máli eða á tilteknu sviði er honum heimilt að taka gjald fyrir.“
Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga kemur fram að umrætt ákvæði sé „hugsað sem sérstakt úrræði þegar óvenjulegar aðstæður koma upp sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í starfsáætlun eða fjárhagsáætlunum stofnunarinnar, en rétt þykir að ríkisendurskoðandi athugi“. Gera verði ráð fyrir að ríkisendurskoðandi hafi sérstakt samráð við forsætisnefnd um slíkar athuganir og sem dæmi um tilvik sem ákvæðið ætti við um er tilgreind athugun Ríkisendurskoðunar í júlí 2010 á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins Álftaness. Þá var ráðist í athugun á grundvelli sérstaks samkomulags Ríkisendurskoðunar við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Hvort hið sama verði uppi á teningnum nú, með samkomulagi stofnunarinnar við fjármála- og efnahagsráðuneytið, hefur ekki komið fram.
Það má vel vera að Ríkisendurskoðun sé ágætlega til þess fallin að yfirfara ákveðna þætti er varða söluna á Íslandsbanka. En ef ætlunin er að rannsaka atburðina frá mörgum hliðum, lagalegum, siðferðilegum, pólitískum og stjórnsýslulegum, og „velta við öllum steinum“ eins og jafnvel stjórnarliðar kalla eftir er hins vegar ljóst að rannsóknarheimildir Ríkisendurskoðunar duga skammt og verkefnið fellur beinlínis illa að starfssviði stofnunarinnar.
Þá er óheppilegt að úttektin fari fram samkvæmt sérstakri beiðni frá fjármála- og efnahagsráðherra, sama manni og hefur forgöngu um bankasöluna sem er til athugunar. Í ljósi þess að ríkisendurskoðandi er trúnaðarmaður Alþingis og heimildir þingmanna til að kalla eftir athugun ríkisendurskoðanda um tiltekin mál eru mun skýrari, og framkvæmd þeirra í fastari skorðum en þegar ráðuneyti eða ráðherra semur við ríkisendurskoðun um athugun máls, hefði verið æskilegra að athugunin færi af stað samkvæmt beiðni frá Alþingi eða að frumkvæði stofnunarinnar sjálfrar.
Ljóst er að athugunin fer fram í skugga pólitískra átaka um hvort og hvenær eigi að skipa óháða rannsóknarnefnd. Hætt er við því að sá farvegur sem málið er nú komið í eftir ákall fjármála- og efnahagsráðherra og bandamanna hans um úttekt frá Ríkisendurskoðun komi almenningi fyrir sjónir sem nokkurs konar gálgafrestur, skálkaskjól, afsökun fyrir því að draga á langinn að setja á fót rannsóknarnefnd með nægilega sterkar heimildir til að rannsaka allar hliðar málsins.
Loks er óheppilegt að Alþingi standi nú frammi fyrir því að kjósa sér nýjan ríkisendurskoðanda á sama tíma og úttektarvinna stofnunarinnar um hápólitískt og viðkvæmt mál stendur yfir.
Stjórnarmeirihlutinn hefur sett Ríkisendurskoðun í afleita stöðu. Nú skiptir miklu að þingmenn úr öllum flokkum taki höndum saman um að lágmarka skaðann og verja sjálfstæði eftirlitsstofnana Alþingis. Um leið þarf að grípa til afgerandi ráðstafana til að upplýsa hvernig staðið var að sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka og endurheimta traust.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar og situr í efnahags- og viðskiptanefnd.