Einhvers staðar á plánetunni jörð fæddist homo sapiens í vikunni sem taldist setja mannkynssögulegt met með því að vera herra eða ungfrú átta milljarðasti sem nú lifir. Var það lítið frumbyggjameybarn í Kalahari eyðimörkinni? Kannski brúneygur Indverji við rætur Himalæjafjalla (tölfræðilega eru miklar líkur á því) eða norður-þingeysk snót á Langanesi? (Litlar líkur á því). Allt um það, aldrei hafa lifað jafn margar mannverur á jörðinni samtímis og nú.
Þessi börn sem nú koma í heiminn fá að arfi fordæmalaus viðfangsefni er varðar afkomu mannkyns. Aldrei áður hefur mannkyn horfst í augu við annað eins - niðurstöður af eigin gjörðum.
Er hluti vandans einmitt þessi börn og hin sem óhjákvæmilega munu bætast við og hækka töluna átta milljarðar í tíu á næstu áratugum? Vissulega eru þau hluti vandans, en þar með er bara minna en hálf sagan sögð.
FólksfjölgunarVANDI?
Sá sem þetta skrifar fæddist í miðri eftirstríðsárabarnasprengjunni þegar mannkyn taldi 2,3 milljarða (1955) og olli sá fjöldi þá þegar svo miklum áhyggjum að vandað fólk taldi brýnt að hefja ófrjósemisaðgerðir í stórum stíl. Mannfjölgunarsprengjan myndi gera út af við okkur því aldrei yrði nóg til skiptanna með sama áframhaldi. Við vitum hvað gerðist. Stórkostlegar framfarir í hreinlæti og læknavísindum breiddust út samtímis því að matvælaframleiðsla mannkyns jókst um mörg hundruð prósent með tilbúnum áburði, kynbótum, orku og miklu vatni. Þegar við nú náum átta milljörðum hafa hrakspárnar ekki ræst. En reyndar verðum við að viðurkenna að nærri einn milljarður af þessum átta er alvarlega vannærður og þrír milljarðar manna eiga ekki fyrir einni næringarríkri máltíð á dag. Eigi að síður, allsherjar mannfellir varð ekki raunin þrátt fyrir nær fjórföldun íbúa á örfáum áratugum.
Annað sem ber að athuga er að hraðinn í vextinum dvín og því mun hámarksfjölda verða náð á bilinu 10-11 milljarðar síðar á þessari öld og svo fara að fækka ef allt hefur sinn gang. Vandamálið er eiginlega ekki fólksFJÖLDINN heldur skipting gæðanna sem hafa má af jörðinni. Eins og ég hef áður rakið í grein í Kjarnanum og glöggt kemur fram í bók minni, Heimurinn eins og hann er, snýst dæmið ekki einfaldlega um fjölda. Það snýst um hvernig við öflum matar (þau kerfi eru gjörsamlega galin) og hvernig gæðum er skipt (og það kerfi er ótrúlega óréttlátt). Litla snótin sem fæddist á Langanesi í hugsanlega dæminu um átta milljarðasta homo sapiensinn mun menga mörg þúsundum sinnum meira en frumbygginn í Kalahari eyðimörkinni sem nú er vonandi á brjósti. Svo ólíkir verða lífshættir þessara tveggja ungbarna. Indverski strákurinn sem ég nefndi mun innan tíðar búa í fjölmennasta ríki heims þar sem gríðarleg mengun og ágeng vatnssóun er forsenda ,,framfara“ hjá stjórnvöldum í kappi þeirra við að líkja sem mest eftir stórsókn iðnríkjanna á liðnum árum. Sú sókn hefur farið með okkur út yfir þolmörk jarðar nú þegar. Því fleiri sem bætast í lúxuslífsstílinn því verra verður ástandið.
Sem horfir?
Ef allt fer sem horfir? Hvað er það á þessum óvissutímum? Nokkuð víst er að þegar börn vikunnar verða 17-18 ára hefur bæst við einn milljarður í viðbót og þegar þau verða rúmlega þrítug verður talan samtals 10 milljarðar á jörðu. Ef ekki kemur eitthvað hræðilegt til sem við getum varla ímyndað okkur, eins fjöldamannfellir vegna faraldra (15 milljónir – aðeins – dóu í Kóvid) – árekstur við halastjörnu (sem eyddi nánast öllu lífi fyrir 65 milljónum ára) þá verður fjöldinn þessi. Það sem er svo óvíst eru lífskjörin sem fólk býr þá við.
Þessir tveir milljarðar barna sem nú eru á leiðinni fæðast næstum öll í Afríku sunnan Sahara eða Suður-Asíu, þar sem efnahagshorfur eru verstar, lífslíkur minnstar og matvælaskortur mestur. Mörg þeirra munu skaðast varanlega á vitsmunum vegna fæðuskorts. Í Afríku fjölgar lang mest þar sem er helmingur af þeim ríkjum sem nú stefna í hreina efnahagskreppu. Stór hluti íbúa þar mun búa við hratt versnandi lífskjör að öllu leyti næstu árin.
Þetta er hluti af hinni stóru mynd samhengi sem ég bregð upp í Heiminum eins og hann er. Hraðvaxtarskeiðið sem kallast ,,hröðunin mikla“ og mín kynslóð naut svo ríkulega með því að vera réttu megin á hnettinum verður einfaldlega ekki endurtekið. Fólksfjölgun úr 2,3 milljörðum í átta á æviskeiði mínu var knúin af tilbúnum áburði, orku og vatni sem nú stendur undir helmingi af matvælaframleiðslu mannkyns. Útblástur gróðurhúsalofttegunda þrefaldaðist árlega á sama tíma. Og svo það sem er ef til vill það hræðilegasta af öllu - 70% af villtum dýrum og plöntum voru drepin. Aðeins ein dýrategund á jarðríki jók lífslíkur sínar á meðan: Maðurinn.
Stefán Jón Hafstein hefur skrifað mikið um þróunarmál á liðnum árum og sendi nýverið frá sér bók um þau mál, Heimurinn eins og hann er. Myndir eru úr bókinni teknar af höfundi. Myndin af blökkukonu er eftir Zanele Muholi sem nú sýnir verk á Listasafni Íslands en þessi mynd er tekin á Feneyjatvíæringnum 2019.