Nýlega bárust fréttir af tveimur umferðaróhöppum í Hvalfjarðargöngum. Slys í jarðgöngum er grafalvarlegt mál. Hvalfjarðargöngin eru löng jarðgöng, hátt í 6 km og í þeim eru tvær akreinar sem liggja í hvora átt og eru ekki aðskildar með öryggisvegg. Auk þess eru í göngunum eða við þau engin öryggisgöng sem vegfarendur geta leitað í ef slys verða í göngunum t.d. ef eldur brýst út.
Hvalfjarðargöngin voru verkfræðilegt stórvirki þegar þau voru gerð á sínum tíma. Með tilkomu ganganna jókst umferðaröryggi og hringvegurinn styttist sem samsvarar tæplega klukkutíma akstri. Varðandi umferðaröryggið má benda á, að enn í dag er leyft að flytja hættulegan farm (t.d. eldsneyti) um göngin. Það er óskiljanlegt og stórhættulegt að slíkir flutningar séu leyfðir með annarri umferð um göngin.
Gerð hefur verið áætlun og kostnaðargreining um tvöföldun Hvalfjarðarganga. Vegagerðin gerði árið 2018 ítarlega greinargerð um tvöföldun Hvalfjarðarganga, þar sem tilteknir voru fimm mismunandi leiðir við tvöföldun ganganna. Er skemmst frá því að segja að allar þessar leiðir gera ráð fyrir nýjum göngum, með neyðarútgöngum og auk þess gerðu þrír valkostir ráð fyrir sérstökum neyðarrýmum. Kostnaður við þessa fimm valkosti er á bilinu 17 til 24,5 milljarðar á verðlagi dagsins í dag, en þess má geta að göngin sjálf kostuðu fullbúin 4.6 milljarða árið 1996 sem gera 13 milljarða á verðlagi dagsins í dag.
Umferðin í dag er að nálgast þolmörk ganganna og því er nauðsynlegt að ganga hreint og örugglega til verks og byrja að vinna að tvöföldun Hvalfjarðarganga þannig að ný göng verði tekin í notkun eftir 6-7 ár. Fyrsta skrefið væri að stofna fyrirtæki utan um framkvæmdina með þátttöku aðila eins og sveitarfélaga á svæðinu og Faxaflóahafna.
Til að fjármagna gerð nýrra ganga liggur beinast við að hafa gjaldtöku, sambærilega við þá sem notuð var til að fjármagna göngin í upphafi. Hægt er að hafa veggjaldið 1000 kr. fyrir staka ferð með afslátt fyrir þá sem fara oft um göngin.. Það tók um 20 ár með veggjöldum að ná fyrir kostnaði við göngin og m.v. þann fjölda ökutækja sem fer nú í gegnum göngin (um 7000 ökutæki á dag) mætti áætla svipaðan tíma að ná inn kostnaði við nýjum göngum.
Niðurstaðan er því sú að aukin umferð um Hvalfjarðargöngin kallar á ný göng. Ný göng munu auka öryggi vegfarenda og draga úr slysahættu. Ný göng munu tengja betur Vesturland við höfuðborgarsvæðið. Tillögur um ný göng liggja fyrir. Því er ekki eftir neinu að bíða. Hefja þarf undirbúning og framkvæmdir.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.