Landssamtök sauðfjárbænda sendu frá sér tilkynningu á föstudag þar sem þau bentu á að afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda sé með því allra lægsta í Evrópu. Til dæmis fái franskir bændur 60 prósent hærra verð en íslenskir bændur fyrir innlagt lambakjöt í afurðastöðvar.
„Hærra verð til bænda í Evrópu þýðir hins vegar ekki að verð til neytenda sé nauðsynlega hærra. Bændur í Evrópu fá einfaldlega stærri hluta af útsöluverðinu til sín,“ segir í samantekt Landssamtakanna. Miðað við verðúttekt þeirra á lambalæri í verslunum þá fá bændur aðeins 25 til 41 prósent af endanlegu útsöluverði. Annað fer til milliliða eins og sláturhúsa, kjötvinnsla og verslana. „Landssamtök sauðfjárbænda telja það varla geta talist sanngjörn viðskipti að milliliðir, sem sumir hverjir skila milljarða hagnaði, taki til sín svo stóran hluta af verðinu.“
Ástandið er ekki boðlegt, segja samtökin, og þarf að leiðrétta. Hæg eru heimatökin, því afurðastöðvarnar eru flestar í eigu bænda. „Landssamtök sauðfjárbænda telja ekki boðlegt að afurðarverð til bænda hér á landi sé langt undir meðaltali í Evrópu. Samtökin vilja vinna með afurðarstöðvum, sem flestar eru reyndar í eigu bænda, að því að leiðrétta skiptingu afurðarverðsins í áföngum á næstu þremur árum,“ segir í tilkynningunni og lagðar til stigvaxandi hækkanir á afurðaverði næstu þrjú ár.
Sauðfjárbændur, eins og flestir aðrir bændur á Íslandi, hafa lengi verið á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Er það mat bænda að það þjóni ekki hagsmunum þeirra að Ísland gangi í ESB með tilheyrandi breytingum á verndartollum, sem eru með þeim hæstu í heiminum hérlendis. Samtímis vilja þeir fá sömu kjör og starfsbræður á meginlandinu.
Getur það verið að bændur í Evrópu fái meira fyrir afurðir sínar, þrátt fyrir að vera ekki hjúfraðir verndartollum, boðum og bönnum?
Í bakherberginu vona menn og konur að hækkandi afurðaverð til bænda frá afurðastöðum í þeirra eigu hækki ekki enn frekar verð á lambakjöti í verslunum, neytendum öllum í óhag.