Umræða um ferðaþjónustuna að undanförnu hefur verið lífleg að undanförnu, enda hefur sú atvinnugrein orðið sú mikilvægasta hér á landi á undraskömmum tíma. Reiknað er með því að gjaldeyristekjur vegna ferðaþjónustu verði 350 milljarðar á þessu ári, en geti orðið allt að 620 milljarðar á árinu 2018.
Þetta eru gríðarlega miklar breytingar, og ekki allir sem átta sig á því hversu breytt landslagið í hagkerfinu verður ef þessar spár ganga eftir.
Að undanförnu hefur svo opnast fyrir fleiri flugleiðir inn í landið, og má nefna eflt millilandaflug um Akureyrarflugvöll og ákvörðun bresku ferðaskrifstofunnar Discover The World um að fljúga tvisvar í viku til og frá Egilsstöðum næsta sumar.
Óhjákvæmilegt er fyrir stjórnvöld að hugsa um það, hvernig megi styrkja innviðina í hagkerfinu fyrir þennan mikla vöxt sem nú er í ferðaþjónustu. Vitað er að stærstu hluti ferðamanna sem hingað kemur gerir það vegna þess að náttúruna togar þá hingað til, og ævintýraþrá sem henni tengist. Tækifærin til vaxtar, ekki síst ljósi þessarar sterku ímyndar náttúru Íslands, eru sannarlega fyrir hendi á landsbyggðinni. Besta mögulega leiðin til þess að styrkja innviðina víða, ekki síst á Vestfjörðum og Austurlandi, er að stórefla samgöngur. Það er ekki bara skynsamlegt efnahagslega, heldur er einnig öryggismál, og má sérstaklega horf til Vestfjarða í því samhengi. Þar eru samgöngur víða skammarlegar, ekki síst í ljósi þess að frumkvöðlar í ferðaþjónustu þar hafa dregið nokkur hundruð þúsund á svæðið með góðri þjónustu, sem er í stöðugum vexti.
Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki unnið að endurbættri stefnu hvað þessi mál varðar, og þurfa nú að hafa hraðar hendur, því algjört lágmark er að þeir verði búnir að átta sig á mikilvægi þess að styrkja samgöngukerfi landsins, áður en kosið verður vorið 2017.