Það hafa borist ánægjuleg tíðindi af fjármálamarkaði undanfarna daga, þegar horft er á hann út frá sjónarhóli frumkvöðla og nýsköpunar. Þrír nýir sjóðir hafa litið dagsins ljós á einni viku, fullfjármagnaðir með 11,5 milljarða til ráðstöfunar. Það eru Brunnur vaxtarsjóður slhf., sem Landsbréf og SA Framtak GP standa að, með fjóra milljarða, Eyrir Sprotar með 2,5 milljarða, og Frumtak 2 með fimm milljarða.
Fólk í bakherberginu fagnaði þessu sérstaklega, og var sammála um að lífeyrissjóðirnir íslensku ættu hrós skilið fyrir að taka þátt í þessum sjóðum, og aðstandendur sjóðanna ekki síður.
Nýsköpunarstarf borgar sig. Ekki alltaf á skömmum tíma, og ekki alltaf í einstökum verkefnum. En fjárfestingin í þekkingarleitinni sem flest í starfi frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja er gríðarlega mikilvæg öllum hagkerfum. Blessunarlega koma síðan tilvik með reglulegu millibili þar sem fjárfestarnir hagnast vel á verkefnum sínum. Vonandi verða sjóðirnir sem nú hafa verið stofnaðir metnaðarfullir í sínum fjárfestingum, sem fólkið í bakherberginu efast ekki um, en hafi um leið langtímahugsun sem leiðarljós.
Flaggskipin í íslenskri nýsköpun, Össur og Marel, eru góð dæmi um það, að metnaðarfullar nýsköpunarfjárfestingar - þar sem frumkvöðlum er treyst en um leið vilji sýndur til að hjálpa til með sérfræðiráðgjöf - skila sér margfalt til baka á endanum, ef vandað er til verka. Um þessar mundir er rekstur þessara fyrirtækja í góðu horfi, og alþjóðleg starfsemi þeirra blómstrar. Um 6.300 starfsmenn (2.300 hjá Össuri og 4.000 hjá Marel) eru á launaskrá hjá þessum fyrirtækjum. Það er um það bil tvöfaldur starfsmannafjöldi endurreistu bankanna þriggja, svo dæmi sé tekið. Össur var stofnað árið 1971, og verður því 44 ára á þessu ári. Marel var stofnað árið 1983, og verður því 32 ára á árinu.
Það hefur stundum verið sagt um starf frumkvöðla að árangur „yfir nótt“ taki ellefu ár (Overnight success takes eleven years). Það er hollt að hafa það bak við eyrað...