Birgir Ármansson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er áhugamaður um skattalækkanir, er líklega óhætt að segja. Að undanförnu hafa verið nokkrar deilur um lækkanir og afnám vörugjalda og síðan hækkun virðisaukaskatts á matvæli, um 5 prósentustig. Birgir tjáði sig, 10. október 2006, eiginlega sigri hrósandi, um þau tíðindi þegar Sjálfstæðisflokkurinn lækkaði virðisaukaskatt á mat niður í 7 prósent, og sagði þá orðrétt á vefsíðu sinni: „Tíðindi dagsins eru að sjálfsögðu tillögur ríkisstjórnarflokkanna um skattalækkanir með það að markmiði að lækka matarverð í landinu. Þessar tillögur eru í nokkrum liðum en mestu munar að sjálfsögðu um lækkun á virðisaukaskatti niður í 7% á mat og aðrar vörur og þjónustu sem nú bera 14% skatt. Þetta var skýrt loforð okkar sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar og er fagnaðarefni að samtaða náðist í ríkisstjórninni um að klára málið á kjörtímabilinu.“
Svo mörg voru þau orð. Þetta sýnir kannski ágætlega, að sum mál eru ekki meitluð í stein þegar kemur að stefnu stjórnmálaflokkanna. Núna stendur Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í nokkuð mikilli varnarbaráttu vegna þeirrar ákvörðunar að hækka skatt á mat!