Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er sigurvegari dagsins, segja menn í bakherberginu. Ekki af því að leiðréttingin er svo vel heppnuð eða hafin yfir gagnrýni – alveg hreint alls ekki eins og stundum hefur komið fram í bakherberginu – heldur frekar af því að í dag kom í ljós að Framsóknarflokkurinn er með Sjálfstæðisflokkinn í vasanum.
Umfangsmesta þjóðnýting á einkaréttarlegum persónulegum skuldbindingum fólks sem ráðist hefur verið í, að mestu að óþörfu, er nú í þann mund að komast til framkvæmda. Þessar persónulegu skuldbindingar hafa akkúrat jafn margar ólíkar forsendur að baki þeim og sem nemur fjölda þeirra sem þjóðnýttar eru. Meðal annars vegna þessa atriðis er ómögulegt að tala um forsendubrest hjá öllum. Forsendur fjárfestinganna voru æði misjafnar, og fjárhagurinn sömuleiðis. Sumir höfðu náð að hagnast vel á fasteignabólunni, á meðan aðrir höfðu ekki gert það. Svoleiðis er nú lífsins gangur. En að tala um almenna aðgerð, með því að horfa einangrað á tveggja ára verðbólgutímabil, óháð raunverulegum forsendum skuldbindinganna, er af þessum sökum tóm della. Það er reyndar huggun að stjórnmálamennirnir eru ekkert að fela þetta, heldur leggja einfaldlega spilin á borðið (Seðlabankinn var reyndar fyrir löngu búinn að því, óumbeðinn), og tala nokkuð skýrt þvert gegn staðreyndunum. Það gerir stöðuna skýrari en hún væri annars.
Heildarumfang þjóðnýtingarinnar, þvert á inntak hægri stefnunnar sem sumir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins segjast aðhyllast, nemur um 80 milljörðum króna. Þetta fólk er hljótt núna, kyngir því sem reyndust ekki vera nein prinsipp, og brosir síðan breitt í faðmi Framsóknarflokksins. Fyrir utan örfáa, helstan að nefna langsamlega besta þingmann flokksins, Pétur H. Blöndal. Tæplega helmingurinn af þessum 80 milljörðum, eða tæplega 40 milljarðar, fer til fólks sem er núna með meira en 13 milljóna jákvætt eigið fé í fasteign sinni. Enginn veit hvers vegna þetta er gert, nema þeir sem að þessu standa vitaskuld. Þessi gjöf í gegnum leidretting.is er óþörf. Á sama tíma og langveik börn þjást vegna þess að þessir sömu stjórnmálamenn vilja ekki láta fé í þjónustu fyrir þau, eða stuðning við aðstandendur þeirra. Það sama má segja um öryrkja og geðsjúka, sem margir eiga ekki fasteign og eru háðir opinberri þjónustu. Þeir fá ekkert. Þetta er staðan.
Sjálfstæðisflokkurinn liggur núna í valnum, gjörsamlega ráðþrota og prinsipplaus. Brynjar Níelsson hrl., Guðlaugur Þór Þórðarson, og ýmsir fleiri fulltrúar flokksins sem talað hafa af óskaplegri ástríðu um ráðdeild í ríkisrekstri, ekki síst í Bítinu á Bylgjunni, standa nú í sameiningu að því að ausa tugum milljarða úr ríkissjóði. Þetta gera þeir fyrir framan fólkið sem þeir hafa skammað fyrir framúrkeyrslu á árlegum fjárheimildum – jafnvel þó gildar ástæður séu fyrir þeim. Þetta gera þeir líka vitandi það að þetta er tóm della og upphæðir eru risavaxnar í öllu samhengi.
Og meginþungi ábyrgðarinnar á þessari stöðu liggur hjá þeim ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem hefur að mörgu leyti staðið sig vel á annasömum tíma. Það er að segja fram að þessu. Það er Bjarni Benediktsson. Hann er fjármálaráðherra og formaður þjóðnýtingarflokksins, flokks óráðsíu í ríkisrekstri, flokks undirgefni gagnvart Framsóknarflokknum, segja menn í bakherberginu.