Það vakti mikla athygli í vikunni þegar Jón Steinar Gunnlaugsson gekkst við því að hafa skrifað nafnlaust bréf sem bar yfirskriftina „Einnota réttarfar“. Bréfið, sem var skrifað árið 2007, var sent til hæstaréttardómara, verjenda og sakborninga í Baugsmálinu og í því er fjallað um að það hafi vakið athygli lögfræðinga hversu úrlausnir Hæstaréttar Íslands hafi „verið sakborningum hagstæðar í þeim Baugsmálum sem hafa ratað til réttarins“. Baugsmál voru á þessum tíma umfangsmestu efnahagsbrotamál sem ratað höfðu fyrir íslenska dómstóla og snérust um fjölmörg ætluð lögbrot æðstu stjórnenda Baugs.
Lengi hafa verið grunsemdir um það á meðal löglærðra manna að Jón Steinar, sem var á þessum tíma sitjandi hæstaréttardómari, hafi skrifað bréfið. Nú þegar Jón Steinar hefur staðfest það er mikið rætt um hversu einstætt, og að mörgu leyti galið, það er að sitjandi hæstaréttardómari ákveði að leggja í slík nafnlaus skrif á meðan að hann situr enn í embætti. Þess ber þó að geta að Jón Steinar kom ekkert að afgreiðslu réttarins á Baugsmálum.
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum forstjóri Baugs, var einn sakborninga í Baugsmálinu.
Lítið hefur hins vegar farið fyrir því að rifja upp innihald bréfsins og mögulegt réttmæti þeirrar gagnrýni sem Jón Steinar setti fram. Í grófum dráttum vísar titill bréfsins til þess að höfundurinn telur að sakborningar í Baugsmálinu hafi fengið einstæða þjónustu hjá dómskerfinu meðal annars vegna þess að fjölmörgum ákæruliðum í málinu var vísað frá vegna þess að þeir hafi ekki verið nægilega skýrir. Þeir ákæruliðir fengu fyrir vikið ekki efnislega meðferð fyrir dómi.
Líkast til var frægasta frávísunin sú þegar héraðsdómur vísaði frá ákærulið á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni fyrir svokallað Fjárfarsfléttu. Liðurinn snérist um að eignarhaldsfélagið Fjárfar keypti verslunarkeðjuna 10-11 og seldi hana síðan Baugi, sem þá var almenningshlutafélag, nokkrum mánuðum síðar með 325 milljón króna hagnaði. Jóni Ásgeiri var gefið að sök að hafa verið raunverulegur eigandi Fjárfars og sá sem stjórnaði félaginu. Hann hafi hagnast verulega á því að selja 10-11 frá félagi í sinni eigu til almenningshlutafélags sem hann stjórnaði.
Í bréfi Jóns Steinars segir: „Engum sem þennan ákærulið les getur dulist ákæruefnið. Jóni Ásgeiri Jóhannessyni forstjóra Baugs var gefið að sök að hafa, með leynd gagnvart stjórn Baugs um að hann væri seljandinn (reyndar fyrirtæki sem hann átti sjálfur en hafði sett leppa fyrir), selt Baugi svonefndar 10/11 verslanir sem hann hafði nokkru áður keypt á mun lægra verði. Var hann sakaður um að hafa með blekkingum hagnast um 325 milljónir króna á kostnað Baugs. Í atvikalýsingu ákærunnar kom meðal annarsfram að ákærði hefði látið afhenda sér háa fjárhæð úr sjóðum Baugs til að standa að hluta straum af kaupverði verslananna, þegar hann keypti þær. Þetta voru í ákærunni talin auðgunarbrot og tíundað við hvaða ákvæði hegningarlaga þau voru talin varða. Héraðsdómur vísaði ákæruliðnum frá dómi á þeirri forsendu að hér væri lýst viðskiptum en ekki auðgunarbroti! Eins og ekki sé hægt að fremja auðgunarbrot í viðskiptum?“
Á fjölda þeirra hrunmála sem sérstakur saksóknari hefur ákært í, hafa hlotið efnislega meðferð og í sumum tilfellum verið sakfellt í er ljóst að dómstólar hafa skipt um skoðun varðandi að það er sannarlega hægt að fremja auðgunarbrot með viðskiptum.