Skýrsla sem Kjarninn fjallaði um á dögunum, þar sem tölvuöryggi Íslands er til umfjöllunar, sýnir að Ísland er í opnu skotfæri fyrir hakkara. Fólkið í bakherberginu veltir því fyrir sér hvort þessi mál séu tekin nægilega föstum tökum hér á landi. Í skýrslunni kemur meðal annars fram, að Seðlabanki Íslands sé líklegur miðpunktur fyrir veikleika, þar sem hann ber ábyrgð á fjármagnshreyfingum til og frá landinu. Þá eru orkuver landsins einnig talin vera mögulegt skotmark hakkara, og nefnt sérstaklega að árásir geti átt sér stað sem miði að því að koma höggi á álfyrirtækin, og hafa áhrif á verð á markaði.
Þetta er grafalvarlegt mál, og ljóst að taka þarf alvarlega samantektir á upplýsingum sem sýna slíka veikleika hér á landi, líkt og fyrrnefnd skýrsla gerir. Árásin á Vodafone, þar sem persónuupplýsingar um viðskiptavini voru gerðar opinberar, sýnir að skaðinn af árásum sem þessum getur verið gríðarlegur og beinst að almenningi.
Því miður óttast fólkið í bakherberginu að ekki sé verið að taka þessi mál nægilega föstum tökum.