Það er orðið nánast árlegur viðburður að allt fari á hliðina innan 365 miðla. Síðustu hræringar spruttu upp frá því að frétt um Geir Ólafs að borða með lötum kokki var fjarlægð af fréttavef samsteypunnar af nýráðnum útgefanda, Kristínu Þorsteinsdóttur. Í kjölfarið var Mikael Torfason rekinn og Ólafur Stephensen hætti, en þeir voru ritstjórar fréttastofu 365. Í Bakherberginu er því slegið föstu að Kristín ráði nú að því öllum árum að ráða inn nýtt stjórnendateymi. Þeir sem til þekkja segja að ekkert komi annað til greina í huga Kristínar en að kona verði sett í ritstjórastólinn, enda yfirlýst stefna hennar að auka hlut kvenna í fjölmiðlum samsteypunnar. Því til viðbótar hefur Kristín haft samband við þónokkra þeirra starfsmanna Fréttablaðsins sem annað hvort hættu eða voru reknir eftir að Mikael Torfason tók við í fyrra og beðið þá að snúa aftur, en án árangurs.
Dýrt að reka marga dýra stjórnendur
Það er þó dýrt að standa alltaf í því að reka vel haldna stjórnendur. Í maí var tilkynnt að Stefán Hilmarsson fjármálastjóri myndi hverfa til annarra starfa. Í júlí var Freyr Einarsson, yfirmaður sjónvarps, rekinn. Skömmu síðar var tilkynnt að Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, hefði líka verið rekinn. Auk þess er stutt síðan skipt var um yfirmann fjarskipta- og tæknisviðs og svo hættu auðvitað ritstjórarnir tveir, annar rekinn og hinn hætti. Í Bakherbergjunum er fullyrt að uppsagnarfrestir sem þurfi að greiða vegna þessara aðila kosti tugi milljóna hið minnsta.
Bakherbergið birtist í nýjustu útgáfu Kjarnans. Lestu hana hér.