Sverrir Ólafsson, prófessor í fjármálastærðfræði við Háskólann í Reykjavík, stendur í stórræðum þessa dagana en hann var að gefa út bók. Bókaútgáfufyrirtækið John Wiley & Sons hefur gefið út bókina „Problems and Solutions in Mathematical Finance: Stochastic Calculus Vol. 1“. Bókin, sem er sú fyrsta í röð fjögurra binda um fjármálastærðfræði, fjallar um stærðfræðileg undirstöðuatriði greinarinnar og hagnýtingu stærðfræðilegra aðferða við greiningu og verðlagningu á mismunandi fjármálagjörningum. Bókina skrifar Sverrir ásamt tveimur stærðfræðingum sem starfa hjá risabönkunum Standard Chartered og Bank of America Merryll Lynch.
Sverrir er virtur fræðimaður á sviði fjármálastærðfræði, hefur sinnt fræðistörfum við nokkra háskóla í Bretlandi en hann er með doktorspróf í eðlilsfræði frá háskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi.
Sverrir komst í kastljós fjölmiðla þegar hann gagnrýndi embætti sérstaks saksóknara harðlega, eftir að Ólafur Þór Hauksson hafði látið hafa eftir sér að hann hefði gert athugasemdir við setu Sverris í fjölskipuðum dómi í Aurum-málinu, ef hann hefði vitað að hann væri bróðir Ólafs Ólafssonar, sem oftast er kenndur við Samskip. Sverrir gaf lítið fyrir þessar skýringar Ólafs Þórs og sagði þær bera vott um örvæntingu til þess eins að veikja sýknudóminn í málinu.