Fólkið í bakherberginu man ekki til þess að staðan á vinnumarkaði hafi verið snúnari en núna, þar sem kjarasamningar, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa reynt að ná saman um, virðast víðs fjarri. Að óbreyttu mun Starfsgreinasambandið, þar sem eru sextán aðildarfélög og á þrettánda þúsund félagsmenn, hefja verkfallsaðgerðir í kringum 10. apríl, ef þær verða samþykktar. Yfirgnæfandi líkur eru á því, eins og Kjarninn greindi frá í dag, en mikil samstaða er innan SGS um að gefa ekkert eftir, þegar kemur að því að hækka lægstu laun upp í 300 þúsund, en þau eru 214 þúsund nú.
Samtök atvinnulífsins eru alls ekki sammála þessu, og telja svigrúmið til launahækkana vera 3,5 til fimm prósent.
Fólkið í bakherberginu veltir því fyrir sér, hvað sé mögulega hægt að gera til að höggva á þennan hnút. Óhjákvæmilegt virðist að stjórnvöld komi að borðinu, og leggi eitthvað til málanna sem getur liðkað fyrir því að samningar náist. Enda bera stjórnvöld mikla ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin, með því að semja við lækna um meira en 20 prósenta launahækkun. Eðlilega horfir verkalýðshreyfingin til þeirra samninga, þegar kemur að því að semja um hækkun launa hjá þeim stéttum sem hafa lægstar tekjur.
Það sem mögulega gæti skipt sköpum nú, að mati fólksins í bakherberginu, er bein aðkoma hluthafa í stórum fyrirtækjum í landinu sem hafa mikla hagsmuni að gæta, að lausn deilunnar. Þeir þurfa einfaldlega að gefa eftir hluta af arðseminni, og færa fjármuni beint niður til fólksins á gólfinu. Sem sagt; einfaldlega leggja það til, að fyrirtækin þurfi að gera minni arðsemiskröfu, græða minna. Þetta á meðal annars við um sjávarútvegsfyrirtæki og einnig fyrirtæki í verslun, þar sem lífeyrissjóðir landsmanna eru meðal stórra hluthafa. Með tillögu eins og þessari, yrði það tryggt að launahækkanir færu ekki út í verðlag, heldur í vasa launamanna. Þetta kæmi vissulega niður á rekstri fyrirtækjanna, en þá væri slíkt einfaldlega uppi á borðinu frá upphafi og almenningur vissi þá að aðilum vinnumarkaðarins væri full alvara með það, að reyna að halda verðbólgudraugnum áfram í skefjum. Það er stærsta hagsmunamál Íslendinga, því um leið og hann fer á stjá þá er voðinn vís og allir tapa.