Ferðaþjónusta fatlaðra hefur verið mjög mikið til umræðu undanfarin misseri, en breytingar á þjónustunni sem ráðist var í um áramótin hafa, vægast sagt, ekki vakið mikla lukku hjá notendum hennar. Einn slíkur skrifaði til að mynda opið bréf sem birtist á Kjarnanum um miðjan janúar mánuð þar sem hún vildi koma á framfæri "mjög alvarlegum og ákveðnum kvörtunum vegna þjónustuleysis ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu". Hún var alls ekki ein um að bera slíkar áhyggjur á torg. Rekstraraðili þjónustunar er Strætó bs.
Í febrúar versnaði ástandið töluvert þegar átján ára þroskaskert stúlka, sem leitað hafi verið að klukkutímum saman, fannst í bíl á vegum ferðaþjónustu fatlaðra, sem var lagt við heimili bílstjórans. Í kjölfarið var skipuð neyðarstjórn ferðaþjónustu fatlaðra. Í síðustu viku týndi ferðaþjónustan síðan öðrum notanda, en um var að ræða ellefu ára gamla fatlaða stúlku sem hafði ekki skilað sér heim til sín.
Í ljósi þess að ferðaþjónustan hefur verið að týna fólki þá vakti ný atvinnuauglýsing frá rekstraraðilanum Strætó bs. mikla athygli í bakherberginu. Hún er ein lína: "Erum við að leita að þér?".