Ýmsir hafa tekið undir ásakanir Víglundar Þorsteinssonar um að fyrrum stjórnvöld hafi framið lögbrot og fært kröfuhöfum fallinna banka 300-400 milljarða króna að gjöf þegar þeir eignuðust þorra hluta í Íslandsbanka og Arion banka á árinu 2009. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði ásakanir Víglundar sláandir og að það þyrfti að rannsaka þær. Kröfuhöfum hafi verið gefnir peningar og því væri ekki hægt að horfa fram hjá.
Hin skelegga Vigdís Hauksdóttir hefur tekið í svipaðan streng. Á heimasíðu sinni segir hún m.a. að „Einkavæðing Steingríms J. Sigfússonar var framkvæmd án nokkurrar umræðu á Alþingi og án þess að breytingar hefðu verið gerðar á starfsumhverfi bankanna og annara fjármálafyrirtækja eða lögum um fjármálafyrirtækja í kjölfar hrunsins“. Þar segir líka að „Fyrri ríkisstjórn tók skyndilega og umsvifalaust ákvörðun um að afhenda lánadrottnum/erlendum kröfuhöfum Kaupþing og Glitni nýju bankana sem heita í dag Íslandsbanki og Arionbanki. Meirihluti Landsbankans er enn í eigu ríkissins“ og að það þurfi að „upplýsa á hvaða forsendum sú ákvörðun var tekin að taka vald af FME varðandi stofnúrskurði byggða á neyðarlögunum og yfir í þá ákvörðun að færa valdið til fjármálaráðherra sem færði kröfuhöfum bankanna þá á einni nóttu“.
Þær forsendur, sem færðu "kröfuhöfum bankanna þá á einni nóttu“, sem Vigdís spyr um eru tíundaðar í greinargerð meirihlutar fjárlaganefndar sem fylgdi með frumvarpinu
Þær forsendur, sem færðu "kröfuhöfum bankanna þá á einni nóttu“, sem Vigdís spyr um eru tíundaðar í greinargerð meirihlutar fjárlaganefndar sem fylgdi með frumvarpinu sem heimilaði Steingrími að „ staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í bönkunum þremur með samningum við kröfuhafanna. Það var lagt fram í desember 2009.
Í greinargerð frumvarpsins segir að nýju bankarnir hafi verið stofnaðir sem „nokkurs konar umgjörð utan um þær eignir og skuldbindingar sem færðar voru úr gömlu bönkunum en þá lá þegar fyrir að endanlegri fjármögnun yrði ekki lokið fyrr en niðurstaða fengist um uppgjör við gömlu bankana. Þrátt fyrir að ríkissjóður hafi við stofnun félaganna verið skráður eigandi alls hlutafjár í þessum félögum lá fyrir að það framlag mundi ekki nægja til að fjármagna starfsemi bankanna til framtíðar eða til uppgjörs fyrirliggjandi skuldbindinga þar sem uppgjör eigna og skulda á grundvelli neyðarlaganna hafði ekki farið fram“.
Einn þeirra sem var í meirihluta fjárlaganefndar á þessum tíma, og lagði fram frumvarpið með félögum sínum, var Ásmundur Einar Daðason, þá þingmaður Vinstri grænna. Hann samþykkti síðar frumvarpið í atkvæðagreiðslu. Hann sagði sig síðar út flokknum, gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og er í dag bræðingur af aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs og þingmanni.
Ef til stendur að rannsaka tilfærslu á eignarhlutum í nýju bönkunum til kröfuhafa þá hlýtur sú rannsókn að ná til þeirra þingmanna sem lögðu fram frumvarpið sem heimilaði tilfærsluna, ekki bara til ráðherrans sem framkvæmdi hana.
Því er spurt í bakherberginu hvort Sigmundur Davíð ætli að láta rannsaka Ásmund Einar, þingmann, aðstoðarmann og trúnaðarmann sinn, fyrir að hafa afhent, í samfloti við vonda vinstraliðið, kröfuhöfum banka fulla af peningum sem með réttu ættu að vera eign íslenskra heimilia og fyrirtækja?