Helgi Magnússon, fjárfestir og stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, flutti fróðlegt erindi á hádegisfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga á dögunum. Helgi var annar tveggja frummælenda á fundinum, en dr. Hersir Sigurgeirsson, kennari við Háskóla Íslands, hélt fróðlegt erindi um eignarhald lífeyrissjóða á skráðum hlutafélögum áður en Helgi tók til máls. Í stuttu máli eiga lífeyrissjóðir ríflega 40 prósent hlutafjár í skráðum félögum hér á landi, en heildareignir þeirra samkvæmt nýjustum tölum Seðlabanka Íslands nema 2.820 milljörðum króna, eða sem nemur um 150 prósent af árlegri landsframleiðslu Íslands.
Helgi komst af því, eftir nokkuð mikla upptalningu, að lífeyrissjóðirnir íslensku ættu lítinn hlut af íslensku atvinnulífi, ekki síst í alþjóðlegum samanburði. Þeir ættu lítið sem ekkert í sjávarútvegi, lítið sem ekkert í innviðafjárfestingum, lítið sem ekkert í orkugeiranum, lítið sem ekkert í landbúnaði, lítið sem ekkert í fjölmiðlum, osvfrv. Í bakherberginu sögðu menn mikið vera til í þessu hjá Helga og raunar lítið um þetta rætt. Sérstaklega er þetta áberandi í sjávarútvegi. Eignarhald á flestum stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins er lítið dreift, og oft eru þar að miklu leyti farsæl fjölskyldufyrirtæki. Aðeins eitt sjávarútvegsfyrirtæki er skráð á markað, það er HB Grandi. Önnur fyrirtæki eru ekki á markaði og lífeyrissjóðir eiga ekkert í þeim. Þetta verður að teljast með nokkrum ólíkindum, sögðu menn í bakherberginu, í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Því var einnig velt upp hvort það geti verið að það sé hugsanlega lykillinn að sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið að eignarhald í stærstu fyrirtækjum verði dreift svo að góður rekstur skili sér beint víðar í samfélagið en nú er. Hver veit...