Það hefur vart farið framhjá mörgum að fjarskiptafyrirtækið Tal hefur nýverið sameinast fjölmiðlarisanum 365. Tilgangurinn er vitanlega að nýta sér samspil fjarskipta og fjölmiðlunar til að skapa öflugt afþreyingarfyrirtæki sem getur keppt í nútímaheimi. Samrunin er því talin mjög skynsamlegur að mörgu leyti og í anda þess sem hefur gerst víða annarsstaðar í heiminum.
Það hefur hins vegar vakið athygli í bakherberginu hversu stóran hlut fyrrum hluthafar í Tal fengu í 365 við samrunann. Þegar Auður 1, fjárfestingasjóður sem nú er í stýringu hjá Virðingu, keypti Tal árið 2010 greiddi hann um 594 milljónir króna fyrir fjarskiptafyrirtækið. Kaupin eru af mörgum talin ein þau verstu sem ráðist hefur verið í eftir hrun, enda hefur Tal lítið gert annað síðan að þau gengu í gegn en að tapa miklum peningum. Árið 2010 tapaði félagið 99 milljónum, árið 2011 nam tapið 92,9 milljónum króna og á árinu 2012 197 milljónum króna. Árið 2013 var tapið síðan 131,3 milljónir króna og í lok árs 2013 voru skuldir umfram eignir 497,5 milljónir króna.
Samhliða hefur viðskiptavinafjöldi Tals hríðfallið. Um mitt ár 2013 voru viðskiptavinir þess til að mynda 20.828. Ári síðar hafði þeim fækkað um 5.500 og markaðshlutdeild Tals í farsímaþjónustu mældist einungis 3,5 prósent. Tal selur líka nettengingar en hefur tapað hlutfallslega mikilli markaðshlutdeild undanfarið. Viðskiptavinum fyrirtækisins fækkaði til að mynda um tvö þúsund frá miðju ári 2013 og út júní 2014 og voru þá einungis 9.217. Markaðshlutdeild Tals er á þeim markaði er 7,9 prósent.
Samt fengu fyrrum hluthafar Tals 19,78 prósent hlut í 365 miðlum, fyrirtæki sem tilkynnti að það hefði hagnast um 746 milljónir króna á árinu 2013. Ef miðað er við að virði Tals sé enn það sama og það var þegar Auður 1 keypti félagið árið 2010, sem verður að teljast ólíklegt miðað við að félagið hefur tapaði 520 milljónum króna á árunum 2010 til 2013 og skuldaði hálfan milljarð króna umfram eignir í lok árs 2013, þá er heildarvirði 365 „einungis“ um þrír milljarðar króna. Það er aðeins minna en áætlanir stjórnenda 365 frá árinu 2012 gerður ráð fyrir. Þar var gert ráð fyrir að virði 365 yrði 11,5 milljarðar króna í lok árs 2014.