Ófá ungmenni dreymir um frægð, ríkidæmi og frama sem atvinnumenn í íþróttum. Og hlutfallslega tekst fleiri Íslendingum að láta atvinnumannadrauminn rætast en öllum öðrum þjóðum. Alls eru atvinnumennirnir okkar í knattspyrnu, handbolta og körfubolta um 160 talsins og hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum.
Viðskiptablaðið hefur um árabil birt lista yfir 20 launahæstu atvinnumennina. Samkvæmt þeim nýjasta gefur það miklu meira af sér að sparka í bolta en að kasta honum. Og engar konur eru á listanum. Alls eru tólf launahæstu atvinnumennirnir knattspyrnumenn, og þar á meðal sá langlaunahæsti, Gylfi Sigurðsson, sem er með 480 milljónir króna í árslaun hjá Swansea í ensku úrvaldsdeildinni.
Efstir utan knattspyrnumannanna eru handboltakapparnir Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmason með 40 og 38 milljónir króna og körfuboltagoðið Jón Arnór Stefánsson með um 30 milljónir króna.
Þótt að þeir 20 sem fá mest borgað geti miklu meira en vel við unað við þau mánaðarlaun sem þeir fá greitt er ljóst að atvinnumannaferillinn er stuttur. Meðaltalsferill knattspyrnumanns í Englandi er til að mynda einungis átta ár. Það þarf því að þéna ansi mikið á þeim árum ef ætlunin er að lifa áhyggjulaus til æviloka á þeim tekjum. Nú, eða nýta tímann til að undirbúa sig undir lífið eftir atvinnumennskuna með því að ná sér í menntun eða leggja drög að öðrum atvinnutækifærum, sem fæstir virðast því miður gera.
Í bakherberginu hefur verið bent á að sá sem er með lægstu launin á topp 20 listanum sé með 2,5 milljónir króna á mánuði í laun. Það þýðir að um 140 atvinnumenn eru með lægri laun en það og þau virðast fara lækkandi frekar en hitt.
Samkvæmt tekjublaðið Frjálsrar verslunar eru meðallaun 200 launahæstu sjómanna Íslands 2,5 milljónir króna á mánuði og ljóst að margir þeirra eru með miklu betri mánaðarlega afkomu en sumir af tekjuhæstu íþróttamönnunum okkar. Sjómenn eiga auk þess mun lengri starfsferla en atvinnumennirnir.
Kannski er tímabært að unga drengi og ungar stúlkur fari að dreyma um hásetapláss frekar en atvinnumannaferil í hópíþrótt?