Í Bakherbergjunum eru menn sammála um að stríðið um upplifun almennings á hrunmálunum sé nú kyrfilega hafið fyrir alvöru. Það sjáist vel á vel skipulögðum skrifum þeirra sem eiga ríkra hagsmuna að gæta í málunum.
Þann 17. október síðastliðinn skrifaði Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings sem hefur verið ákærður fjórum sinnum af sérstökum saksóknara, aðsenda grein í Fréttablaðið. Í henni hélt Hreiðar Már því fram að Seðlabanki Íslands hafi ekki gengið frá lánaskjölum né veðtöku fyrir 500 milljóna evra neyðarláni sem bankinn veitti Kaupþingi 6. október 2008 fyrr en nokkrum dögum síðar. Í greininni segir Hreiðar Már: „Það voru óvenjulegir tímar í byrjun október 2008. Frágangur lánsins til Kaupþings var einnig óvenjulegur þar sem Seðlabanki Íslands millifærði einfaldlega 500 milljónir evra til Kaupþings mánudaginn 6. október eftir samtal um lánveitinguna milli mín og Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans. Engin lánaskjöl voru undirrituð og Seðlabankinn gekk ekki frá veðsetningu FIH bankans til sín.“
Fréttablaðið sló aðsendu greininni upp á forsíðu og í kjölfarið varð allt vitlaust í samfélaginu. Seðlabankinn sendi frá sér yfirlýsingu þar sem söguskýringu Hreiðars Más var mótmælt harkalega og Davíð Oddsson, fyrrum formaður bankastjórnar Seðlabankans, skrifaði heiftúðlegt Reykjavíkurbréf í Morgunblaðið þar sem hjólaði fast í Fréttablaðið og Hreiðar Má.
Átta dögum síðar, 28. október, skrifaði Hreiðar Már aðra grein í Fréttablaðið um sama mál. Þar sagði hann vilja taka „ skýrt fram að ég tel ekki að stjórnendur eða starfsmenn Seðlabankans hafi gerst sekir um umboðssvik við afgreiðslu lánsins. Tímarnir voru óvenjulegir í byrjun október 2008 og ég held að starfsmenn og stjórnendur Seðlabankans hafi starfað í góðri trú og talið sig vera að vinna innan sinna heimilda og samkvæmt vilja ríkisstjórnar. Enginn ásetningur var um að valda fjárhagstjóni. Stjórnendur og starfsmenn Seðlabankans voru undir miklu álagi nákvæmlega eins og starfsmenn fjölmargra innlendra fjármálafyrirtækja á þessum tíma sem tóku heiðarlegar ákvarðanir þó að e.t.v. megi eftir á finna að því að vikið hafi verið frá verkferlum við afgreiðslu einstakra lánamála.“
Í greinum Hreiðars Más kom líka skýrt fram sú skoðun hans að setning neyðarlaga síðar saman dag og lánið var veitt hafi verið banabiti alþjóðlegrar bankastarfsemi á Íslandi. Þar með gaf hann í skyn að þeir sem tóku ákvörðun um lánið til Kaupþings, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra, hafi vitað að banabitinn væri væntalegur. Neyðarlögin myndu alltaf fella bankann.
Á föstudag, 31. október, skrifuðu lögmennirnir Ragnar H. Hall og Helgi Sigurðsson, sem var yfirlögfræðingur Kaupþings þegar bankinn féll, saman grein í títtnefnt Fréttablað.Í greininni spyrja Ragnar og Helgi hvort það geti „verið að þeir menn sem tóku ákvörðun um lánveitinguna 6. október 2008 hafi ekki áttað sig á þeirri verulegu fjártjónshættu sem lánveitingunni fylgdi í ljósi fyrirætlana sem fólust í frumvarpi til neyðarlaganna? Getur verið að efni neyðarlaganna hafi komið til tals í símtalinu fræga sem þessir menn áttu í aðdraganda lánveitingarinnar og þeir vilja alls ekki birta? Það er afar áríðandi að fá þetta upplýst ef menn ætla sér á annað borð að brjóta til mergjar öll stóru málin sem tengdust hruninu 2008.“
Greinin hnýtir því saman þá söguskýringu sem Hreiðar Már hafði boðið upp á í sínum greinum: að Seðlabankinn hafi lánað í góðri trú og aðstæður hefðu krafist þess að hann viki frá venjubundnum starfsreglum við lánveitingu. Bankinn hafi ekki gert sér grein fyrir því að neyðarlögin myndu fella bankakerfið. Því hefðu starfsmenn Seðlabankans ekki gerst sekir um umboðssvik við afgreiðslu lánsins, ekki frekar en Hreiðar Már og félagar hans þegar þeir ráðstöfuðu láninu, en ein ákæran á hendur þeim snýr að hluta til að þeirri ráðstöfun. Allir hafi verið að starfa í góðri trú.