Vöxtur Hamborgarbúllu Tómasar er ein skemmtilegasta viðskiptasaga síðari ára. Tómas Tómasson, maðurinn sem kynnti Íslendinga fyrir alvöru skyndibitahamborgurum á Tommaborgurum sem hann stofnaði árið 1981, snéri til baka í hamborgaraslaginn um páskahelgina árið 2004 með því að opna litla „búllu“ í gömlu kaffistofu Slippsins við Geirsgötu. Nú, tæpum ellefu árum síðar, eru staðirnir orðnir ellefu talsins. Sex þeirra eru á Íslandi, tveir í London og einn í Berlín, Kaupmannahöfn og Osló. Á útlensku heitir staðurinn „Tommi´s Burger Joint“.
Það eru ekki bara gæði hamborgaranna sem orsaka vinsældir staðarins innan og utan landssteinanna, heldur hefur markaðssetning á „Búllunni“ þótt afbragð.
Gestur í bakherberginu sem fylgir ýmsum sem eru frægir einvörðungu fyrir að vera frægir á samfélagsmiðlum benti á eitt slíkt markaðsbragð sem „Búllan“ greip nýlega til og heppnaðist frábærlega.
„Búllan“ nefndi einn hamborgara sem fæst í stöðum hennar í London eftir hinum 16 ára Brooklyn Joseph Beckham. Sá er sonur fyrrum fótboltastjörnunnar og undirfataauglýsingagoðsins David Beckham og kryddlegnu tískugyðjunnar Victoríu Beckham.
Af hverju var þetta sniðugt hjá „Búllu“-mönnum? Jú, vegna þess að Brooklyn þessi, þrátt fyrir ungan aldur og lítil afrek, er samfélagsmiðlastjarna. Hann til að mynda með yfir hálfa milljón fylgjendur á Instagram. Eftir að hamborgarinn var nefndur eftir honum birti Brooklyn mynd af sér með auglýsingaskilti sem sýndi borgarann, og þar með fengu fylgjendur hans vitneskju um að hann fengist á Tommi´s Burger Joint. Rúmlega 103 þúsund manns hafa líkað við myndina.