Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt frá því opinberlega að hann hafi sótt um skuldaleiðréttingu.
Samkvæmt tekjublaði DV voru laun Bjarna í fyrra 1.458 þúsund krónur á mánuði, eða rúmlega þreföld regluleg meðal mánaðarlaun fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði á árinu 2013. Mánaðarlaun Bjarna voru líka um 100 þúsund krónum hærri en meðal lækkun á skuldum þeirra heimila sem þáðu skuldaniðurfellingu.
Þrátt fyrir að sækja um peninga úr ríkissjóði er ljóst að Bjarni er ekki á flæðiskeri staddur. Samkvæmt umfjöllun Viðskiptablaðsins um ríkidæmi Íslendinga, sem reiknað var út frá auðlegðarskattsgreiðslum, áttu Bjarni og eiginkona hans um 122 milljónir króna umfram skuldir í lok síðasta árs. Verðmætasta eign þeirra hjóna er 451 fermetra einbýlishús í Garðabæ. Samkvæmt fasteignamati ársins 2015 er fasteignamat þess 102 milljónir króna. Það hækkar um 6,5 milljónir króna. Markaðsverð er vanalega umtalsvert hærra en fasteignamat og því allar líkur á að húsið sé mun meira virði.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla um hvort hann hafi sótt um skuldaniðurfellingu. Líklegt verður þó að telja að Sigmundur og eiginkona hans séu ekki með húsnæðislán, enda var hrein eign þeirra í lok síðasta árs 516 milljónir króna, samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins. Það gerir hann að ríkasta þingmanni þjóðarinnar.