Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, kom mörgum í opna skjöldu þegar hann hjó fast í Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra um helgina og ásakaði hana beinleiðis að vera ekki starfi sínu vaxin vegna vandræðagangs sem átt hafði sér stað með kaup á gögnum um möguleg skattaundanskot Íslendinga sem hafa geymt peninga í skattaskjólum á undanförnum árum.
Andúð Bjarna var strax túlkuð sem svo að hann ætlaði sér að standa í vegi fyrir að gögnin yrðu keypt. Hluti stjórnarandstöðunnar hikaði ekki við að hoppa á tækifærið til að gagnrýna Bjarna vegna þessa. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði Bjarna vera að láta frændhyglina þvælast fyrir sér. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, ásakaði Bjarna um að hafa farið í fýlu eins og lítill krakki og sagði að öllum væri „orðið ljóst að hann er ekki að ganga fram af fullri ákveðni í þessu máli“.
Fortíð Bjarna sem stórtæks viðskiptamanns og mikil umsvif fjölskyldu hans í atvinnulífinu gerði það að verkum að það reyndist pólitískum andstæðingum Bjarna nokkuð auðvelt að sá tortryggnisfræjum um að hann stæði á móti kaupunum á gögnunum vegna þess að það væri eitthvað í skattaskjólunum sem kæmi honum illa.
Málið var því farið að líta ansi illa út fyrir Bjarna. Hann þurfti að bregðast við því af festu og myndi ekki komast upp með að ásaka fjölmiðla um óbilgirni eða fara með möntruna um á hversu lágu plani hin pólitíska umræða væri komin. Hann þurfti að bregðast við eða horfa á tortryggnina breiðast út eins og hlaupabólu á ungbarnaleikskóla. Og það gerði hann.
Fyrst sendi fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem það upplýsti um hversu umfangsmikil gögnin eru, hvað þau eiga að kosta og að ráðuneytið væri tilbúið að greiða fyrir kaupunum, ef skattrannsóknarstjóri vildi.
Bjarni mætti svo í viðtal, vísaði ásökunum um að framganga hans í málinu væri til að hygla ættingjum hans á bug og sagði að ríkisstjórnin sem hann er hluti af ætli „ekki að gefa nein grið þeim sem ekki taka þátt í samfélagslegum skyldum sínum með því að borga skatta“. Að lokum mætti hann í Kastljós í kvöld og sagði enga fyrirstöðu vera í ráðuneyti sínu gagnvart því að sækja gögnin, að hann sjálfur hafi aldrei átt félög á aflandseyjum og viðurkenndi að hann hefði tekið of stórt til orða þegar hann gagnrýndi Bryndísi. Í millitíðinni hafði skattrannsóknarstjóri tilkynnt að gögnin verði keypt.
Með viðbrögðum sínum snéri Bjarni taflinu algjörlega við. Pólitíska tækifærismennskan um að hann væri að hindra upplýsingu um mögulegar skattaundanskotssyndir ættingja sína byggði alltaf á tilfinningu, ekki staðreyndum, og stendur frekar neyðarleg eftir nú þegar Bjarni hefur sagt skattrannsóknarstjóra að sækja gögnin. Hann hefur opinberlega lýst því yfir hvað ríkisstjórn hans ætlar að gera við þá sem sviku undan skatti. Og Bjarni viðurkenndi meira að segja að hann hafi gengið of langt í gagnrýni sinni á skattrannsóknarstjóra og gert með því mistök.
Ekkert um ómöguleika, loftárásir eða misskilning. Í bakherberginu eru menn sammála um að margir samráðherrar Bjarna gætu lært mikið af því hvernig hann snéri sér út úr þeirri klemmu sem hann kom sér í með klaufalegum yfirlýsingum um liðna helgi. Það er ef allt sem hann hefur sagt undanfarna daga reynist satt og rétt.