Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ), brást ókvæða við gagnrýni á félagið sem birtist í bakherbergispistli Kjarnans á dögunum. Hjálmari fannst gagnrýni úr bakherberginu, um að lítið hafi heyrst í fagfélagi blaðamanna á jafn róstursömum tímum á fjölmiðlamarkaði, vera ómakleg og hafnaði henni. Gagnrýni blaðamanna í bakherberginu snérist fyrst og síðast að takmarkaðri þátttöku félagsins í faglegri umræðu, en ekki útleigu sumarbústaða eða annarra þátta innan BÍ sem stéttafélags. Á því sviði hefur félagið enda staðið sig að mörgu leyti feykilega vel.
Margir innan bakherbergisins syrgja það hins vegar að formaður BÍ hafi ekki gripið tækifærið sem gafst í kjölfar gagnrýni Kjarnans, til að taka málefnalega umræðu um hlutverk og skyldur blaðamannafélagsins, og hvernig félagið hafi staðið sig í stykkinu.
En minnugir blaðamenn í bakherberginu muna þann tíma þegar blaðamannafélagið lét stundum í sér heyra, og rifjuðu upp af því tilefni heilsíðuauglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu 24. mars árið 2005.
Auglýsing frá Félagi fréttamanna hjá RÚV, sem Blaðamannafélag Íslands studdi.
Auglýsinguna má rekja til mjög svo umdeildrar ráðningar Auðuns Georgs Ólafssonar í stöðu fréttastjóra útvarps hjá Ríkisútvarpinu. Ráðningin var pólitísk, enda fimm aðrir umsækjendur um stöðuna metnir hæfari til að gegna henni að teknu tilliti til starfs- og stjórnunarreynslu og menntunar.
Fréttamenn á Ríkisútvarpinu börðust sameinaðir sem einn gegn ráðningunni og nutu til þess stuðnings Blaðamannafélags Íslands. Eins og flestir vita skilaði barátta þeirra árangri, því aldrei tók Auðun Georg við stöðunni.
Í bakherberginu finnst mörgum blaðamanninum að sambærilegar aðstæður séu uppi á Íslandi í dag, og velta því fyrir sér hvort ekki hafi verið fullt tilefni til fyrir blaðamannafélagið að styðja í verki félagsmenn sína. Sérhagsmunaöfl sem sjá hag sinn í að stýra umræðu hafa tekið yfir hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum, starfsumhverfi blaðamanna fer hrakandi með hverju árinu og starfsöryggi þeirra er með því lakasta sem fyrir finnst. Það er því öskrandi þörf á að fagfélag blaðamanna láti kröftulega í sér heyra og beiti sér til að bæta aðstæður skjólstæðinga sinna. En Blaðamannafélag Íslands velur þess í stað að þegja um ástandið. Eina sem frá því heyrist er gagnrýni á þá félagsmenn þess sem gagnrýna þögnina.
Að gefnu tilefni er vert að ítreka að bakherbergið er á ábyrgð ritstjóra Kjarnans. Öll frekari gagnrýni forsvarsmanna BÍ má því beinast beint að honum, leiðist þeim nafnleysið.