Davíð Oddsson, sem var áratugum saman langvaldamesti maður landsins en er nú ritstjóri Morgunblaðsins, fór mikinn í Reykjavíkurbréfi dagsins að venju. Nú beindi Davíð spjótum sínum að þeim sem ráða mestu í lífeyrissjóðum landsins, segir að rannsóknarskýrsla sem gerð hafi verið um sjóðina hafa verið hvítþótt og að raddir séu „háværar um fyrirferðarmestu einstaklingana á þessum vettvangi en einnig um getuleysi þeirra sem ber að hafa taumhald á þeim.[...] Fullyrt er að margir í þessum hópi þekki vel til kvartana yfir framgöngu einstakra manna sem hafa troðið sér til óeðlilegra áhrifa í umboði sem þeir eiga ekki að hafa.“
Mikilvægt sé fyrir lífeyrissjóðina, sem eru orðnir mjög fyrirferðarmiklir eigendur í íslensku atvinnulífi innan hafta, að virtar séu reglur, „bæði settar og óskráðar, um tímamörk á stjórnarsetu um að einstakir stjórnarmenn í lífeyrissjóðum skuli ekki skipa sjálfa sig í stjórnir, né heldur að koma sér upp fjarstýringu með því að raða inn handgengnum mönnum umfram öll mörk.[...] Þegar það bætist við að sumir hinna valdasæknustu, í krafti annarra fjár, eru jafnframt umsvifamiklir fjárfestar á eigin vegum, ættu jafnvel þær aðvörunarbjöllur að hringja þar sem lítið er eftir á batteríunum. Sérstaklega ef ekki verður annað séð en einatt eigi viðkomandi fullmikla samleið með ákvörðunum stórra sjóða launamanna. [...]Hér er um fjöregg launamanna að ræða. Lífeyriskerfi og atvinnulíf framtíðarinnar mun fyrr en síðar fara fram af brúninni, ef ófagleg og óvönduð vinnubrögð og bullandi hagsmunaárekstrar af framangreindum toga, viðgangast lengi. Ekki hefur verið minnst á lögbrot í þessu sambandi. Það þýðir þó ekki að þau kunni ekki að vera hluti af þessu spilverki. Hitt er hins vegar öruggt að nýr hvítþvottur verður ekki liðinn þegar þetta dæmi verður gert upp eftir brotlendinguna.“
Davíð Oddsson var áratugum saman allt um lykjandi á Íslandi og réð því sem hann vildi. Nú er hann ritstjóri Morgunblaðsins.
Í bakherberginu er samhljómur um að þessar pillur séu fyrst og síðast ætlaðar Helga Magnússyni, varaformanni og fyrrum formanni lífeyrissjóðs verslunarmanna. Helgi hefur verið nokkuð gagnrýndur fyrir að fjárfesta persónulega í sömu stóru fjárfestingum og lífeyrissjóðurinn sem hann situr í stjórn í hefur gert. Þannig eiga félög sem Helgi á hlut í hlutabréf í Marel, en lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti eigandi þess fyrirtækis. Helgi situr enn fremur í stjórn Marel. Þá var mikið pískrað um það í bakherbergjunum á sínum tíma að Helgi hefði komið Orra Haukssyni að sem forstjóra Skipta eftir að lífeyrissjóðirnir náðu undirtökunum í fjarskiptarisanum, en áður hafði Orri verið framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, þar sem Helgi var lengi formaður.
Ljóst er að Helgi er jafn lítið hrifinn af Davíð og gamli forsætisráðherrann er af honum. Þann 16. mars 2014 sendi Helgi tölvupóst á ýmsa áhrifamenn í viðskiptalífinu,nþar á meðal stjórnarmenn í lífeyrissjóðum og fjárfesta. Í póstinum leggur Helgi út frá því hvers vegna Morgunblaðið hafi verið svo upptekið af því að fjalla um Má Guðmundsson og launamál hans gegn Seðlabankanum. Hann segir að undirliggjandi séu nokkrar ástæður sem séu frekar „subbulegar“, þar á meðal að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vilji komast að stýrinu í Seðlabankanum til þess að ráða því í hvaða höndum eignir sem Seðlabankinn heldur á, þar á meðal kröfur í bú föllnu bankanna, lendi. Þá segir hann Davíð Oddsson, fyrrverandi formann stjórnar Seðlabanka Íslands og nú ritstjóra Morgunblaðsins, vera að reyna að bæta ímynd sína. Bréfið í heild er birt hér að neðan.
Í bakherberginu sjá menn harða bardaga framundan. Tveir af valdamestu mönnum landsins síðastliðna áratugi, sem báðir eru með mikil og rótgróin tengsl við Sjálfstæðisflokkinn, eru að takast mjög opinberlega á.
Nú verður poppað.