Í drögum starfshóps að lagafrumvarpi, um mál sem snúa að þeim sem hafa skotið eignum undan skatti, segir að þeir sem kjósi að nýta sér „griðarreglurnar“, sem frumvarpið fjallar um, hafi frá 1. júlí næstkomandi og út júní á næsta ári til að skila skattaundanskotum sínum. Geri þeir það munu þeir ekki þurfa að sæta refsingu.
Fólkið í bakherberginu veltir því fyrir sér á hvaða leið réttarríkið íslenska er, þegar svona hlutir verða lögfestir. Þetta þýðir að efnafólk sem hefur skotið eignum undan skatti, mun geta borgað sig framhjá lögsóknum, þrátt fyrir að lögbrot verði óumdeild. Eðlilegar spurningar vakna í þessu samhengi. Hvað með önnur og mun vægari lögbrot, sem fara alla leið í dómskerfinu, og enda með dómum? Hvers vegna eiga skattsvikarar að fá þessa þjónustu frá stjórnvöldum?
Fólkið í bakherberginu telur að vafalítið muni fara fram líflegar umræður um þessi mál á Alþingi, þar sem réttarheimspekilegar hliðar sjálfs réttarríkisins verða í brennidepli. Með lögum skal land byggja, og allir skuli vera jafnir frammi fyrir lögunum. Svo fátt eitt sé nefnt.