Fólkið í bakherberginu er ekki refsiglatt, en vill að mál fari með sínum hætti í gegnum dómskerfið og að álitamál fái efnislega meðferð, ekki síst þau sem varða almannahagsmuni, eins og reyndin er með mál sem varða trúverðugleika viðskiptalífsins og fjármálamarkaðarins. Miklar tafir á mörgum málum er tengjast bankahruninu má meðal annars rekja til þess að ýmis atriði hafa verið kærð, og ákærðu hafa oftar en ekki krafist frávísunar.
Eftir dóm Hæstaréttar í Al Thani málinu, liggur ljóst fyrir að helstu stjórnendur Kaupþings munu ekki geta fengið reynslulausn úr fangelsi þar sem nokkur mál hafa ekki verið til lykta leidd ennþá, þar á meðal þrjú mál sem bíða þess að verða tekin til aðalmeðferðar, og síðan fleiri mál sem eru til rannsóknar. Reynslulausn úr fangelsi stendur ekki til boða fyrir þá, sem enn eru með mál gegn sér til meðferðar í dómskerfinu.
Í ljósi þessa telur fólkið í bakherberginu líklegt að fallið verði frá frávísunarkröfum og kærum, eða þær hreinlega ekki bornar á borð, og málin fái þannig hraðari efnislega meðferð, jafnvel þó hinir ákærðu neiti ennþá staðfastlega að hafi brotið gegn lögum.