Í bakherberginu er rætt um að afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem innanríkisráðherra, verði ekki eina stóra fréttin sem framundan er á þessu ári þegar ríkisstjórnin er annars vegar. Stærsta hagsmunamál þjóðarinnar í augnablikinu snýr að fjármagnshöftunum. Haftabúskapurinn hefur búið til falska veröld fyrir íbúa landsins, segja menn í bakherberginu. Núna gæti verið að skapast tækifæri til þess að rýmka höftin eða afnema þau, og jafnframt eyða óvissu um snjóhengjuna svokölluðu, þar sem slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans eru annars vegar. Eins og fjölmiðlar hafa greint frá að undanförnu – þó einkum bara tveir, Kjarninn og Morgunblaðið – Þá standa líkur til þess að útgönguskattur verði lagður á til að tryggja hagsmuni ríkisins þegar kemur að krónueignum erlendra aðila og kröfuhafa í búin. Líkur standa til þess að skatturinn gæti skilað ríkinu gríðarlega miklum fjármunum, 300 til 500 milljörðum jafnvel, allt eftir því hversu hár skatturinn verður og framkvæmdin sömuleiðis.
Í bakherberginu segja menn að það þurfi ekki snilling til að sjá, að þetta gætu hæglega orðið ein áhrifamestu tímamót í íslensku efnahagslífi fyrr og síðar, og þá til góðs. Forystumenn ríkisstjórnarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, verða kenndir við þessa aðgerð allan sinn feril, segja menn í bakherberginu. Ekki er þó ljóst enn hvernig málinu verður lent, eins og áður segir. Stjórnvöld ásamt Seðlabanka Íslands vinna að því að leysa úr þessari flækju, í samstarfi við ráðgjafa, og koma fram með lausnir á þessum mesta efnahagsvanda þjóðarinnar í augnablikinu.
Áframhald á spennandi tímum í íslenskum stjórnmálum...