Umdeilt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015 var samþykkt á Alþingi í gær. Eins margsinnis hefur komið fram í fjölmiðlum er þar gert ráð fyrir að útvarpsgjaldið til RÚV lækki um áramótin úr 19.400 krónum niður í 17.800 krónur, og áramótin á eftir niður í 16.400 krónur.
Stjórnendur RÚV hafa fullyrt að með skerðingu útvarpsgjaldsins verði félaginu gert ókleyft að sinna lögbundinni þjónustu sinni samkvæmt útvarpslögum, og þá hefur verið gagnrýnt að ráðist sé í lækkun útvarpsgjaldsins áður en endurskoðun á starfsemi RÚV liggur fyrir á Alþingi.
Í bakherberginu hefur körlum og konum borist til eyrna að einstaka stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hjá RÚV íhugi nú stöðu sína vegna stöðunnar sem uppi er. Í rekstraráætlunum RÚV er nefnilega gert ráð fyrir að félagið þurfi að skera niður um allt að 700 milljónir króna í rekstri félagsins á ársgrundvelli til að bregðast við lækkun útvarpsgjaldsins.
Í bakherberginu er fullyrt að á meðal þeirra sem íhugi nú alvarlega að segja skilið við RÚV skútuna, sé Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjórinn sjálfur. Þá eru einstaka stjórnarmenn hjá RÚV sömuleiðis sagðir skorta áhuga á að taka þátt í blóðugasta niðurskurði í sögu félagsins.
Þá er fullyrt í eyru bakherbergisbúa að starfsfólk RÚV sé felmtri slegið vegna yfirvofandi niðurskurðar. Þó verði að öllum líkindum ekki ráðist í flatan niðurskurð, heldur verður frekar ráðist í að afleggja ákveðnar deildir innan RÚV. Hver lendingin verður, og hvort einhverjir stjórnarmenn hætta, mun að öllum líkindum skýrast að einhverju leyti eftir fund hjá stjórn félagsins á morgun.