Það var vel til fundið hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri (FKA) að veita Guðbjörgu Matthíasdóttur (lengst til vinstri á meðfylgjandi mynd) viðurkenningu FKA árið 2015, segir fólkið í bakherberginu. Hún er einn umsvifamesti fjárfestir landsins, er eigandi stórra fyrirtækja í út- og innflutningi, Ísfélags Vestmannaeyja og Íslensk/Ameríska. Svo eitthvað sé nefnt, en það eru fleiri fyrirtæki sem hún á eignarhluti í, t.d. Morgunblaðið og Oddi. Hún hefur sjálf kosið að vera nær alveg utan kastljóss fjölmiðla, veitir afar sjaldan viðtöl.
Í samtali við vef FKA, í tilefni af viðurkenningunni, gerði hún það að umtalsefni að nauðsynlegt væri að fara í átak í samgöngumálum. Hún sagði miklar breytingar hafa orðið til góðs, frá því að hún hóf að koma að fyrirtækjarekstri árið 1976. Það sama verður ekki sagt um samgöngumálin, að hennar sögn. „Í þeim málum hefur orðið heilmikil afturför þegar litið er til Vestmannaeyja“ segir hún. „Fyrirtæki verða að geta stólað á daglegar ferðir upp á land – en undanfarið hefur verið mikill brestur á því. Greiðar og tryggar samgöngur eru lífæð allra framleiðslufyrirtækja og ég tel að við þurfum að fara í átak í samgöngumálum um allt land.“
Þetta eru allrar athygliverð orð hjá Guðbjörgu, og eflaust mikið til í þeim. Fólkið í bakherberginu er á því að stjórnvöld ættu frekar að horfa til þess að styrkja samgöngur á landsbyggðinni meira en gert hefur verið, en að færa þangað opinber sérfræðistörf hjá sérhæfðum stofnunum. Mun skynsamlegra er að styrkja innviði og leggja þannig grunn að því að einkafjárfestar geti betur athafnað sig með auknum umsvifum. Gott dæmi um þetta eru Héðinsfjarðargöng, sem margir fundu flest til foráttu fyrir byggingatíma þeirra. Nú heyrist lítið. Á áhrifasvæði þeirra blómstrar nú atvinnulíf og lét Róbert Guðfinnsson fjárfestir, hafa það eftir sér á ráðstefnu Félags viðskipta- og hagfræðinga á Akureyri í gær, að göngin hefðu sannarlega skipt sköpum í milljarða fjárfestingum hans á Siglufirði.