Starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins leggur til að Þjóðkirkjan fái endurgreiddan þann niðurskurð sem hún tók á sig umfram aðrar stofnanir eftir hrun. Upphæðin nemur um 660 milljónum króna, en til greina kemur að „endurgreiða“ kirkjunni upphæðina á fjórum árum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í fréttum RÚV á laugardag, að kirkjan hafi sýnt mikið umburðarlyndi og fórnfýsi á undanförnum árum og sjálfsagt sé að hún njóti þess nú. Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur nú málið inn á borði hjá sér, en hún sagði í fréttum RÚV í kvöld að kirkjan sé mikilvæg stofnun í samfélaginu og hún líti jákvæðum augum til hennar.
Þjóðkirkjan, sem allir Íslendingar borguðu sjálfvirkt til, nema þeir báðu um annað, þar til nýverið, fær röskar 4.000 milljónir króna úr ríkissjóði á yfirstandandi fjárlagaári. Þar af fær biskup litlar 1.700 milljónir króna í sinn hlut, svo greiðir ríkissjóður ríflega 1.900 milljónir í sóknargjöld til kirkjunnar. Til samanburðar fær RÚV tæpar 3,5 milljarða í sinn hlut árið 2015, en stofnunin aflar sér auðvitað aukins fjármagns með auglýsingasölu, eins fáránlegt og það kann nú að hljóma.
Í bakherberginu er fólk hvumsa yfir forgangsröðun stjórnvalda, að ákveða á þessum tímapunkti, í miðju læknaverkfalli og matarskattshækkunum, að tendra kyndilinn og ana fram völlinn með einbeittan vilja að bæta kirkjunni niðurskurð sem hún neyddist til að taka á sig umfram aðrar stofnanir sem greinilega var talið að hefðu mikilvægara hlutverki að gegna í miðjum fordæmalausum efnahagslegum hamförum.