Það kom mörgum á óvart þegar sveitarfélagið Fjallabyggð tilkynnti í gær að pólitíski þungavigtarmaðurinn Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogsbæjar, yrði næsti bæjarstjóri sveitarfélagsins. Lítið hefur farið fyrir Gunnari undanfarin misseri, eða frá því að hann missti takið á valdataumunum í Kópavogi.
Gárungarnir voru ekki lengi að dusta rykið af fleygum ummælum Gunnars úr fyrndinni, og segja að nú sé þess ekki lengi að bíða að Gunnar láti hafa eftir sér í viðtali: „Það er gott að búa í Fjallabyggð.“
Í bakherberginu vakti ráðning Gunnars í stól bæjarstjóra Fjallabyggðar nokkra athygli. Eins og flestir vita sameinuðust sveitarfélögin Ólafsfjörður og Siglufjörður í eitt sveitarfélag árið 2006 undir merki Fjallabyggðar. Ein lykilforsenda sameiningarinnar voru bygging Héðinsfjarðarganga sem tengja byggðakjarnana saman, en göngin voru opnuð í október árið 2010.
Því má í raun segja að sveitarfélagið Fjallabyggð hafi ekki orðið til nema fyrir tilstuðlan Héðinsfjarðarganga. Í ljósi þessa var kátt á hjalla í bakherberginu þegar ummæli Gunnars Birgissonar um Héðinsfjarðargöng, frá því í apríl árið 2005, voru rifjuð upp. Þá sagði nefnilega Gunnar í ræðustól Alþingis: „Héðinsfjarðargöng eru ein vitlausasta framkvæmdin sem ég hef heyrt um í langan tíma.“ Orðin lét Gunnar falla í umræðum um samgönguáætlun.
Þá sagði Gunnar af sama tilefni að fjármunum til nýframkvæmda í vegamálum væri misskipt milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Mun meira fjármagni væri varið til framkvæmda á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, og það þrátt fyrir að mun fleiri byggju á höfuðborgarsvæðinu.
Í bakherberginu bíða konur og karlar óþreyjufull eftir að heyra hvort breyting hafi orðið á afstöðu Gunnars Birgissonar til þessa mikilvæga málaflokks.