Við brosum því við borgum ekki Icesave

icesavenota-1.png
Auglýsing

Icesave málið tröllreið íslensku samfélagi um árabil. Birtar voru óteljandi fréttir af öllum öngum þess, ásamt því að tugir álitsgjafa stigu fram með ýmis sjónarmið í tengslum við eina stærstu milliríkjadeilu síðari tíma á Íslandi. Icesave litaði íslenska pólitík og hafði málið gríðarleg áhrif á pólitískt landslag, eins og sigur Framsóknarflokksins í síðustu kosningum ber meðal annars merki um.

Ennþá misskilningur á ferð


Sigríður Mogensen. Sigríður Mogensen, hagfræðingur og meistaranemi við LSE í London.

Þrátt fyrir þetta virðist enn ríkja talsverður misskilningur á því um hvað þessi deila snerist. Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, skrifaði pistil í desember síðastliðnum sem bar heitið: “Við greiðum Icesave - með bros á vör”. Pistillinn byggir á grundvallarmisskilningi á eðli deilunnar og niðurstöðu málsins. Tilefni pistilsins er tilkynning breskra stjórnvalda um að þau hafi nú endurheimt um 85% að kröfum sínum í þrotabú Landsbankans, vegna Icesave reikninganna. Bresk stjórnvöld minntust ekki einu orði á að um væri að ræða skuld íslensku þjóðarinnar í tilkynningu sinni. Það gerir pistlahöfundur þó og talar um “skuld Íslendinga”. Þessi meinloka er lífseig, þetta var aldrei skuld þjóðarinnar. Ekki frekar en að erlendar skuldir Actavis eða annarra stórfyrirtækja eru skuldir Íslendinga. Skuld og krafa í þrotabú er heldur ekki sami hluturinn.

Íslenska ríkið bæri áhættuna


Þegar mesta rykið hafði sest eftir þá örlagaríku mánuði sem haust- og vetrarmánuðir 2008-2009 reyndust lá fyrir að þrotabú Landsbankans myndi að öllum líkindum standa undir meginþorra Icesave krafnanna. Icesave samningarnir snerust um það að íslenska ríkið tæki ábyrgð á höfuðstólnum, bæri áhættuna, en þó fyrst og fremst um vexti. Vaxtakostnaðinn sem safnaðist upp frá þeim tíma sem Bretar og Hollendingar inntu af hendi greiðslur til innlánseigenda Icesave reikninganna, þar til þrotabú Landsbankans lyki við útgreiðslur vegna krafna þeirra. Vaxtakostnaðurinn endurspeglaði þá tímagjá. Eitt pund greitt út á haustmánuðum 2008 var meira virði en eitt pund sem fengist til baka síðar. Óvissa ríkti um það hve háar endurheimturnar yrðu nákvæmlega og hvenær tækist að hefja, og ljúka, útgreiðslum úr þrotabúi Landsbankans. Þetta var þungamiðjan í málinu, frá efnahagslegu sjónarmiði.

Kaus málið útaf borðinu í tvígang


Og sem betur fer kaus íslenska þjóðin málið út af borðinu í tvígang, því gróflega áætlað næmi áfallinn vaxtakostnaður Buchheit samningsins í dag á bilinu 65 - 80 milljörðum króna, í erlendri mynt. Gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins var og er þröng fyrir og er nær óhugsandi að velta þvi fyrir sér hvernig komið væri fyrir ríkissjóði hefði þessi reikningur fallið til. Áfallinn vaxtakostnaður vegna hins svokallaða Svavarssamnings næmi síðan ríflega 200 milljörðum króna. Það er því fjarri lagi að þjóðaratkvæðagreiðslurnar og sigurinn í dómsmálinu skipti “þannig frekar litlu þegar upp er staðið”, eins og Stefán Ólafsson orðaði það í pistli sínum.

Vörðu sinn eigin fjármálamarkað


Bresk og hollensk stjórnvöld tóku þá ákvörðun að greiða innlánseigendum kröfur sínar skömmu eftir fall Landsbankans. Það gerðu þau fyrst og fremst til að verja sinn eigin fjármálamarkað. Sneru sér svo að Íslendingum og kröfðust endugreiðslu á þeim greiðslum ásamt vöxtum. Þrátt fyrir að mikil lagaleg óvissa væri uppi. Með niðurstöðu EFTA dómstólsins í janúar 2013 var endanlega úr því skorið að íslenskir skattgreiðendur væru ekki ábyrgir fyrir því að tryggja innistæður fallinnar fjármálastofnunar. Þessi niðurstaða virtist hafa komið mörgum í opna skjöldu, þrátt fyrir að frá upphafi málsins hafi allt bent til að rétturinn væri okkar megin. Hins vegar fór deilan á tímabili að snúast um eitthvað allt annað en staðreyndir og rök. Afskipti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að málinu bættu ekki úr skák og þáverandi stjórnvöldum er vissulega vorkunn að hafa þurft að sitja undir þeim þrýstingi sem sjóðurinn beitti. Það er einnig rannsóknarefni út af fyrir sig að skoða þær forsendur sem helstu lánshæfismatsfyrirtæki notuðu til að komast að þeirri niðurstöðu að lögfesting Icesave samnings myndi bæta lánshæfismat Íslands. Það er eitthvað furðulegt við þá aðferðarfræði að þegar þjóð tekur á sig meiri skuldbindingar batni lánshæfi hennar. Vonandi hafa greiningaraðilar endurskoðað þessa hugmyndafræði síðan.

Einfalt og skýrt


Ef pólitík er vikið til hliðar eru staðreyndir málsins nokkuð einfaldar og skýrar. Það er mjög mikilvægt að sagan sé skrifuð eftir staðreyndum, sérstaklega í hagsmunamáli að stærðargráðu við Icesave málið.

Að halda því fram að þjóðin sé nú að greiða Icesave höfuðstólinn er ótrúlega furðuleg röksemdarfærsla. Eignir voru fluttar úr gamla Landsbankanum yfir í þann nýja og hluti af greiðslunni fyrir þær eignir er í formi skuldabréfs í erlendum gjaldeyri (oft nefnt Landsbankabréfið) sem nýji bankinn þarf að standa skil á gagnvart þrotabúinu. Greiðslur af skuldabréfinu munu vissulega renna til helstu kröfuhafa þrotabúsins, sem eru bresk og hollensk stjórnvöld. Icesave samningarnir hefðu ekki breytt uppgjörinu á milli gamla og nýja Landsbankans, en til viðbótar hefði ríkissjóður verið í ábyrgð fyrir því að forgangskröfuhafar þrotabús einkabankans fengju kröfur sínar greiddar upp í topp. Ásamt því að inna af hendi sligandi vaxtakostnað vegna þeirrar skuldbindingar.

Auglýsing

Það væri kærkomið ef þjóðin gæti í sameiningu þakkað fyrir að svo fór ekki. Óháð því hver afstaða fólks var á sínum tíma í málinu. Hún skiptir ekki máli í dag. Íslendingar unnu fullnaðarsigur fyrir EFTA dómstólnum – skattgreiðendur bera ekki ábyrgð á höfuðstóli Icesave krafnanna og greiða hann ekki. Vonandi ber virtum álitsgjöfum sú gæfa að reyna ekki að telja þjóðinni trú um annað.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit
None