Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa verið duglegir að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir skuldaniðurfellingarnar sem bera hið villandi nafn Leiðréttingin. Þeir hafa hver á fætur öðrum gagnrýnt að hún gagnist helst fullt af fólki sem þarf ekkert á henni að halda og sýni að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem þau kalla „ríkisstjórn ríka fólksins“ sé út í hött. Betur færi á því að nota þessa 80 milljarða króna í að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
„Þessi niðurstaða er afskaplega ósanngjörn og nýtist best þeim sem hafa mest á milli handanna,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Hluti skuldaniðurfellinganna fer til fólks sem hefur ekki beina þörf fyrir þetta framlag, sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar sagði þetta vera peninga „sem koma úr spítölunum okkar og heilbrigðiskerfinu almennt, úr skólakerfinu, vegakerfinu. Við notum ekki þessa peninga til að greiða niður opinberar skuldir sem eru skuldir okkar allra."
Gagnrýni þeirra allra er réttmæt og nauðsynleg, en hún verður fremur hol í ljósi þess að öll þrjú virðast hafa ákveðið að sækja um skuldaleiðréttinguna sem þeim finnst svona ósanngjörn. Fé sem þeim finnst að ætti að fara í önnur verkefni og til annarra stétta en hálaunastétta myndi þá mögulega renna að hluta til í að borga niður húsnæðislánin þeirra. samþykki þau niðurfellinguna.
Regluleg meðallaun vinnandi Íslendinga í fyrra voru 436 þúsund krónur. Samkvæmt tekjublaði DV var Katrín Jakobsdóttir með 1.608 þúsund krónur í mánaðarlaun á árinu 2013 (þegar hún var ráðherra), Árni Páll Árnason með 1.009 þúsund krónur á mánuði og Guðmundur Steingrímsson með 926 þúsund krónur.
Laun þeirra voru frá því að vera tvöföld í að vera tæplega fjórföld meðalaun launamannsins. Þurfa þau á niðurfellingu að halda? Eru þau ekki hluti þeirra sem hafa mest á milli handanna? Á að nota peninga sem koma úr spítölunum okkar til að létta á skuldastöðu fólks með svona laun?
Í bakherbergjunum eru menn og konur sammála um að það sé pólitískur afleikur, og í raun óforsvaranlegt, fyrir þetta fólk sem gagnrýnir „ríkisstjórn ríka fólksins“ harðlega fyrir að eyða peningum í þá sem ekki þurfa á því að halda, að velja að vera sjálf með útréttar hendurnar að þiggja gjafirnar. Það má því með réttu segja að „ríkisstjórn ríka fólksins“ sé ríkisstjórn forystumanna stjórnarandstöðuflokkanna.
Nema auðvitað Pírata. Engir þingmenn þeirra sótti um niðurfellingu.
Árétting:
Guðmundur Steingrímsson hefur ekki gefið það upp opinberlega hvort hann hafi sótt um niðurfellingu eða ekki.