Guðrún Ögmundsdóttir, formaður Landsnefndar UN Women á Íslandi.
Í dag hefst herferð UN Women á Íslandi þar sem vakin er athygli á mikilvægi þess að tryggja öryggi kvenna og barna í almenningsrýmum. Herferðin er liður í alþjóðlegu verkefni UN Women sem kallast Öruggar borgir (e.Safe Cities Global Initiative ). Markmið verkefnisins er að skapa konum og börnum öruggt líf í borgum án ótta við ofbeldi.
Borgaryfirvöld í 18 borgum um allan heim hafa nú þegar heitið því að gera borgina sína öruggari og mun Reykjavík nú bætast í hópinn og vinna að bættu öryggi kvenna og barna víðsvegar um borgina.
Samhliða verkefninu „Öruggar borgir“ stendur UN Women fyrir fjáröflun til styrktar sambærilegum verkefnum í fátækustu ríkjum heims. Aðkoma UN Women að slíkum verkefnum er m.a. að leiða saman viðeigandi stjórnvöld, samtök kvenna og fleiri aðila og greina hvar ofbeldi á sér stað og við hvaða aðstæður, með það að leiðarljósi að grípa til viðeigandi aðgerða og úrbóta.
Aðgerðirnar sem gripið hefur verið til eru af ýmsum toga, s.s. bætt götulýsing, smáforrit í síma sem auðveldar þolendum ofbeldis að kalla eftir hjálp í neyð og notkun greiðslukorta í stað reiðufjár til að koma í veg fyrir að konur ferðist með mikið reiðufé á sér. Þessar lausnir hafa reynst árangursríkar í forvörnum gegn ofbeldi.
Í lok árs 2012 beindust augu heimsins að Nýju Delí í kjölfar hrottalegrar árásar á unga stúlku í strætisvagni sem leiddi til dauða hennar. Því miður var sú árás ekkert einsdæmi en í framhaldi hennar varð mikil vitundarvakning hjá almenningi og borgaryfirvöldum. Með liðsinni UN Women var hrundið af stað verkefni til að stöðva ofbeldi í Nýju Delí. Haldnir voru samráðsfundir með konum og ungmennum í sjö úthverfum borgarinnar og lagt á ráðin. Verkefnið markaði tímamót þar sem í fyrsta skipti var litið á kynbundið ofbeldi sem hluta af borgarskipulagsvanda og í fyrsta skipti fengu raddir kvenna og ákall um bætt og betra umhverfi hljómgrunn.
Kröfur kvennanna voru skýrar en um leið áhrifaríkar. Þær lutu m.a. að bættri lýsingu í almenningsrýmum og á opnum svæðum, auknu öryggi við almenningssalerni og strætisvagnastöðvar, breiðari gangstéttum og öruggari skólaleiðum. Krafa var um aukna þjónustu fyrir þolendur kynferðisofbeldis með neyðarmóttökum, og fjölgun símaklefa. Þessar einföldu leiðir hafa ásamt öðru leitt til þess að konur upplifa sig nú þegar öruggari á ferð um borgina og bera um leið meira traust til yfirvalda, sem birtist m.a. í fleiri tilkynningum til lögreglu í kjölfar árása.
Ofbeldi gegn konum og börnum er hnattrænt vandamál. Með upplýstri umræðu, breyttu hugarfari og aðgerðum sem stuðla að bættu og öruggara umhverfi má hins vegar sporna við ofbeldi og árásum á konur og börn.
Leggjumst á eitt við að auka öryggi kvenna og barna í fátækustu löndum heims og sendum smáskilaboðin oruggborg í símanúmerið 1900, um leið og við leggjum verkefninu lið með 1.900 kr. framlagi.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.