Um fátt annað hefur verið rætt í bakherbergjunum þessa vikuna en stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Þar furða menn sig á ákvörðunartöku Hönnu Birnu undanfarið ár. Það er mat bakherbergismanna og –kvenna að Hanna Birna hefði getað varið stöðu sína með því að stíga til hliðar strax og lögreglurannsókn á nú játuðum leka aðstoðarmanns hennar hófst formlega. Samhliða hefði Hanna Birna einfaldlega geta sagt að hún ætlaði ekki að tjá sig um málið fyrr en eðlilegri rannsókn lögreglu væri lokið og þannig horfið vel undir radarinn á meðan að á útlægðinni stæði.
Staða Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra er afskaplega veik þessa daganna.
Ef Hanna Birna hefði gert hlutina svona hefði hún átt örugga endurkomuleið í efstu deild íslenskra stjórnmála strax og niðurstaða í málinu lægi fyrir, sama hver sú niðurstaða væri. Þess í stað ákvað hún að negla sig fasta við ráðherrastólinn og glataði allri virðingu og trúverðugleika með því að ráðast hatrammlega á allar stofnanir samfélagsins sem gagnrýndu eða rannsökuðu lekamálið.
Hanna Birna hefði raunar átt að læra af kollega sínum Illuga Gunnarssyni.
Þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt 12. apríl 2010 var í henni að finna mikla umfjöllun um vafasaman peningamarkaðssjóð Glitnis, hinn fræga Sjóð 9. Í skýrslunni var gagnrýnt að sjóðurinn hefði keypt verðlaus skuldabréf FL Group fyrir 10,7 milljarða króna eftir þjóðnýtingu Glitnis og að fjárfestingar hans hefðu ekki verið í neinu samræmi við auglýsta fjárfestingarstefnu. Rannsóknarnefndin vísaði auk þess málum tengdum Sjóði 9 til embættis sérstaks saksóknara. Illugi Gunnarsson sat í stjórn Glitnis sjóða fyrir hrun.
Fjórum dögum eftir að skýrslan kom út tilkynnti Illugi að hann myndi taka sér leyfi frá þingstörfum á meðan að rannsókn embættisins stæði yfir
Fjórum dögum eftir að skýrslan kom út tilkynnti Illugi að hann myndi taka sér leyfi frá þingstörfum á meðan að rannsókn embættisins stæði yfir. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér af þessu tilefni sagði m.a.: „Mat mitt er að sú óvissa sem myndaðist við þá ákvörðun nefndarinnar að vísa með almennum hætti málum peningamarkaðssjóðanna allra til sérstaks saksóknara, sé til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á störfum mínum á Alþingi. Jafnframt kann þessi óvissa að skaða Sjálfstæðisflokkinn í þeirri miklu vinnu sem framundan er við endurreisn íslensks efnahagslífs og samfélags. Við það get ég ekki unað“.
Tæpu einu og hálfu ári síðar snéri Illugi aftur á þing eftir að niðurstöður lögfræðiálits sem unnið var um Sjóð 9 hafi sýnt að hvorki lög né reglur hafi verið brotnar í starfsemi hans.
Hann hefur nú algjörlega náð vopnum sínum, er mennta- og menningarmálaráðherra og þykir líklegastur allra sjálfstæðismanna til að taka við af Hönnu Birnu sem varaformaður flokksins þegar hún loks segir af sér.