Þegar fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson ákvað að kaupa út alla hina hluthafa Actavis, sem áttu um 60 prósent hlut í fyrirtækinu á móti honum, sumarið 2007 fékk hann fjóra milljarða evra, rúmlega 600 milljarða króna á núvirði, lánaða hjá þýska bankarisanum Deutsche Bank. Kaupverðið var 17 sinnum hagnaður fyrir fjármagnsliði, vexti og afskriftir og fór að langmestu leyti til íslenskra aðila sem átt höfðu hluti í Actavis. Þessi hópur er líkast til sá sem kom best allra út úr hruninu. Þ.e. sá hluti hans sem endurfjárfesti peninganna sína ekki í íslenskum bönkum og tapaði þeim þar af leiðandi aftur.
Í nýútkominni bók sinni, Billions to Bust –and Back, segir Björgólfur Thor að þetta hafi verið eitt síðasta stóra lánið sem veitt var á alþjóðamörkuðum til að kaupa upp fyrirtæki með þessum hætti áður en alþjóðlega fjármálakrísan skall á. Í bókinni er láninu líkt við „síðustu þyrluna sem fór frá bandaríska sendiráðinu í Saigon árið 1975 áður en borgin féll í hendur norður-víetnamíska hersins“.
Í bókinni er láninu líkt við „síðustu þyrluna sem fór frá bandaríska sendiráðinu í Saigon árið 1975 áður en borgin féll í hendur norður-víetnamíska hersins“.
Það átta sig ekki allir á því en lánveitingin sem Deutsche Bank veitti Björgólfi Thor var risavaxinn fyrir bankann. Að hans sögn voru einungis bandaríska og breska ríkið með stærri einstakar skuldbindingar við Deutsche Bank. Vanalega þegar slík lán voru veitt þá leiddi einn banki það en dreifði síðan áhættunni með fleirum. Í þetta skiptið var Deutsche Bank gráðugur og vildi hirða allar þóknanir vegna lánveitingarinnar sjálfur. Það átti hann eftir að fá í hausinn.
Í bókinni segir frá því að með ógreiddum vöxtum hafi lánið vegna Actavis-kaupanna staðið í um 5,8 milljörðum evra, tæpum 900 milljörðum króna, árið 2009. Ef Actavis hefði orðið ógjaldfært og fyrirtækið í kjölfarið selt hefði einungis fengist um 1,4 milljarðar evra, um 215 milljarðar króna, fyrir það. Deutsche Bank hefði því setið uppi með um 685 milljarða króna tap vegna lánsins sem bankinn hefði þurft að bókfæra. Það er tæplega 40 prósent af landsframleiðslu Íslands á síðasta ári.
Deutsche Bank tókst að fela þessa líklega stærstu mögulegu tapstöðu sína í ársreikningum fyrir öllum nema þeim sem vissu nákvæmlega af hverju þeir voru að leita. Björgólfur Thor segir að málið hafi verið mjög vandræðalegt fyrir bankann og þegar unnið var að endurskipulagningu þess, sem tryggði Björgólfi Thor möguleika á því að eignast hlut í Actavis að nýju og verða aftur ofurríkur, hafi verið yfirvofandi sú raunverulega hætta að Deutsche Bank gæti tapað ofangreindum fjárhæðum.
sumir bankamenn sögðu meira að segja við okkur að þetta gæti leitt til þess að þýski kanslarinn, Angela Merkel, myndi taka lyklanna að Deutsche Bank. Kannski höfðu þeir rétt fyrir sér! Hvað hefði fólki þá fundist um „fortress Germany“?
Björgólfur Thor segir að slíkt tap hefði líklega leitt til þess að Deutshe Bank hefði þurft að leita eftir fjármagnsinnspýtingu sem hefði líklega alið af sér bein ríkisafskipti af starfsemi þessa risavaxna alþjóðlega fjárfestingabanka. Í bókinni segir Björgólfur Thor að „sumir bankamenn sögðu meira að segja við okkur að þetta gæti leitt til þess að þýski kanslarinn, Angela Merkel, myndi taka lyklanna að Deutsche Bank. Kannski höfðu þeir rétt fyrir sér! Hvað hefði fólki þá fundist um „fortress Germany“?“.