Nýtt deiliskipulag á Hlíðarendasvæðinu hefur valdið miklum deilum vegna þess að æstir aðdáaendur Reykjavíkurflugvallar hafa lýst yfir andstöðu við það. Þeir telja að skipulagið ógni framtíðartilveru flugvallarins. Málið er raunar komið svo langt að 15 þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram lagafrumvarp um að ríkið taki skipulagsvald á svæðinu af Reykjavíkurborg til að tryggja flugvöllinn.
En Hlíðarendasvæðið hefur ekki bara verið umdeilt vegna nálægðar við flugvöllinn. Árið 2005 var gert ansi nýstárlegt samkomulag milli Reykjavíkurborgar og eignarhaldsfélagsins Valsmanna, sem var í eigu knattspyrnufélagsins Vals og nokkur hundruð stuðningsmanna þess. Í samkomulaginu fólst að Valsmenn keyptu byggingarland á Hlíðarenda á 872 milljónir króna, veðsetti það land til að fá lán hjá Frjálsa fjárfestingabankanum og byggði sér glæsilegt íþróttahús, knattspyrnuvöll og æfingarsvæði. Af verðinu voru 500 milljónir króna staðgreiddir.
Hugmyndin var upphaflega að byggja á byggingarlandinu, selja þær fasteignir og fjármagna uppbygginguna sem ráðist var í á aðstöðu Vals. Nýr knattspyrnuvöllur, íþróttahús og grasæfingarsvæði varð allt saman að veruleika, en ekkert bólaði á framkvæmdum á byggingarlandinu.
Ástæðan var endalausar tafir á útgáfu lóðaleigusamninga. Vegna þeirra tafa samþykkt Reykjavíkurborg að greiða Valsmönnum ehf. tafarbætur. Árið 2010 var umfang tafarbóta orðið samtals 470 milljónir króna, eða nánast sama upphæð og borgin hafði þá fengið í greiðslu fyrir HLíðarendalandið. Þá sagði borgin hingað og ekki lengra og tók einhliða ákvörðun um að borga ekki frekari bætur til Valsmanna.
Síðan heyrðist lítið af þessu öllu saman. Vorið 2013 var þrýstingur á frekari uppbyggingu miðsvæðis í Reykjavík nánast orðinn óbærilegur í ljósi þess að lang flestir íbúar höfuðborgarinnar vilja búa þar en framboðið var lítið sem ekkert. Á sama tíma náðu Valsmenn að endurfjármagna félagið og gátu byrjað að skipuleggja uppbyggingu Hlíðarendasvæðisins.Í liðinni viku var loks samþykkt nýtt deiliskipulag á Hlíðarenda sem felur í sér uppbyggingu 600 íbúða á svæðinu. Enn mun bætast við þegar glæsilega aðstöðu Valsmanna á svæðinu því þeir byggja sér knatthús.
Allt virðist því ætla að enda vel. Valsmenn munu eignast aðstöðu til íþróttaiðkunnar sem jafnast á við það besta í Evrópu og Reykjavíkurborg mun eignast nýtt stórt íbúðahverfi miðsvæðis í borginni. Það er ef skipulagsvaldið verður ekki tekið af höfuðborginni.