Síðasta íslenska haust var undirlagt af læknaverkfalli. Fyrirsagnir eins og „Allt stefnir í neyðarástand“, „Heilbrigðiskerfi á heljarþröm“, „Læknar hættir að koma heim“, „Alvarlegt ástand vegna uppsagna ungra lækna“, „Engir krabbameinslæknar á Íslandi 2020?“ og „Aðgerðum frestað og biðlistar lengjast“ voru daglegt brauð og þjóðin, í gegnum fjölmiðla, fékk þá tilfinningu að ef ekki yrði samið við lækna strax yrðum við ekki lengur velferðarríki heldur þriðja heims ríki.
Og læknar náðu eyrum þjóðarinnar. Skoðanakannanir sýndu að mikil meirihluti svarenda var þeirrar skoðunar að læknar ættu að fá launahækkanir umfram aðra.
Þann 7. janúar var samið við lækna um tugprósentalaunahækkanir. Eftir það hefur varla verið skrifuð eða sögð frétt af „neyðarástandinu“ í íslenskum heilbrigðismálum.
En hvað veldur? Eftir að samningar náðust var upplýst um að Læknafélag Íslands hafi ráðið almannatengilinn Gunnar Stein Pálsson til að vera því til ráðgjafar á meðan að læknar þrýstu á miklar launahækkanir. Í nýjasta hefti Læknablaðsins sagði formaður félagsins að ráðningin á Gunnari Steini hafi alveg tvímælalaust hjálpað til við að knýja fram verulega kjarabætur, sem nú hafa reyndar sett kjaradeilur allra annarra stétta samfélagsins í mikið uppnám.
Í bakherberginu er því velt fyrir sér hvort Gunnar Steinn og læknarnir hafi einfaldlega ekki náð að spila á fjölmiðlanna og almenningsálitið eins og hljómfagurt strengjahljóðfæri til að ná sínu fram með gengdarlausum, og skipulögðum, hræðsluáróðri?
Til að gæta allrar sanngirni er nauðsynlegt að taka fram að samkeppnishæfni landsins um sérfræðilækna er auðvitað viðvarandi og hættulegt vandamál. Sérfræðingar skila sér illa heim þar sem grasið virðist grænna annars staðar. En neyðarástandið var að minnsta kosti fljótt að hverfa úr umræðunni þegar launatékkar lækna hækkuðu um tugi prósenta.