Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðismanna, vakti ekkert sérstaklega mikla lukku þegar hann spurði á Facebook-síðu sinni hvort bakgrunnur múslima á Íslandi hefði verið kannaður, hvort einhverjir þeirra hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í löndum þar sem „óöld ríkir meðal múslima.“ Það vakti enn síður lukku þegar hann velti því fyrir sér í samtali við Vísi hvort „við þurfum að hafa áhyggjur af því að hér leynist slíkt fólk“.
Þeir sem urðu minnst ánægðir voru ungir samflokksmenn Ásmundar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum formaður Heimdallar, sagði það vera „vægast sagt átakanlegt að vera í sama flokki og Ásmundur“. Magnús Júlíusson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) og tengdasonur flokksformannsins Bjarna Benediktssonar, sagði að ummæli Ásmundar vektu hjá sér óhug. SUS sendi síðar frá sér ályktun þar sem sambandið hvatti Ásmund til að biðjast afsökunar og að það sé virkilega óviðeigandi og til umhugsunar að maður sem á sæti á æðstu stofnun Íslendinga láti ummæli sem þessi falla.
Í bakherberginu er rifjað upp að þetta er ekki í fyrsta sinn á undanförnum misserum sem ákveðnar kreðsur í Sjálfstæðisflokknum máta sig við eitthvað sem vel má flokka sem útlendingaandúð. Í kjölfar kosningasigurs Sænskra demókrata í kosningunum í Svíþjóð í september birtist leiðari í Morgunblaðinu, sem að öllum líkindum var skrifaður af Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins, fyrrum forsætisráðherra og fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins.
Leiðarinn hét „Hinir óhreinu“ og í honum var gagnrýnt að Sænskir demókratar væru kallaður öfgaflokkur vegna stefnu sinnar í málefnum innflytjenda, en flokkurinn vill þrengja aðgengi þeirra að landinu mjög. Í Reykjavíkurbréfi sem Davíð skrifaði í desember síðastliðnum var þráðurinn tekinn upp og sagt að það væri rétt og skylt að ræða heiðarlega og öfgalaust um hversu hratt ríki eigi að taka á móti erlendum ríkisborgurunum og hvaða skilyrði þeir eigi að þurfa að uppfylla. Þar sagði einnig: „Öfgarnar felst í því að reyna að útiloka slíka umræðu“.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor sem talinn var einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins á valdatíma Davíðs Oddssonar, hefur látið ýmislegt í sama anda frá sér fara undanfarna mánuði. Í september 2014 skrifaði hann pistil þar sem sagði orðrétt: „Útlendingar eru misjafnir, og við höfum í okkar friðsæla landi ekkert að gera við þrjá hópa. Einn er sá, sem ekki nennir að vinna. Félagsleg aðstoð við fullhraust fólk er ætíð óskynsamleg, en félagsleg aðstoð við fullhrausta útlendinga, sem við höfum engar skyldur við aðrar en að láta þá í friði, er óafsakanleg. Annar hópur er sá, sem fremur glæpi, og þarf vitanlega ekki að hafa fleiri orð um það. Þriðji hópurinn er sá, sem reynir að troða siðum sínum upp á okkur.“
Og hver er ekki sammála mér um, að þrír erlendir hópar eiga ekkert erindi til Íslands: síbrotamenn, fólk í leit að framfærslu og menn, sem vilja neyða öfgaskoðunum sínum upp á aðra?
Undanfarna daga hefur Hannes sett nokkrar stöðufærslur á Facebook af sama meiði. Þann 6. janúar sagði Hannes Hólmsteinn m.a.: „Og hver er ekki sammála mér um, að þrír erlendir hópar eiga ekkert erindi til Íslands: síbrotamenn, fólk í leit að framfærslu og menn, sem vilja neyða öfgaskoðunum sínum upp á aðra?“
Tveimur dögum síðar sagði hann: „Samuel Huntington benti á eðlismun á íslam og kristni: Múhameð var í senn spámaður og herforingi, sem reiddi sverð sitt og vann lönd. Kristur var spámaður, fallegur, hávaxinn, skeggjaður maður í hvítri skikkju, sem boðaði náungakærleik og bað menn að fyrirgefa óvinum sínum.“
Á sunnudaginn birtist svo færsla hjá honum þar sem m.a. kom fram að „auðvitað á ekki að banna slæður, af því að múslimakonur bera þær, heldur af því að dulbúningar á almannafæri eru óeðlilegir, því að þá verða menn nafnlausir og um leið ábyrgðarlausir. Afstaða manna á að vera efnisleg, en ekki sótt í andúð eða hatur á heilum trúflokkum eða þjóðflokkum.“
Það virðist ekki sama frjálslyndið ríkjandi hjá eldri, og sögulega áhrifamiklum, kreðsum í Sjálfstæðisflokknum og ríkir hjá ungliðunum sem urðu brjálaðir út í Ásmund í dag.