Það er ekki ofsögum sagt að allt sé vitlaust á hinum íslenska fjölmiðlamarkaði. Blaðamenn DV eru ýmist reknir eða hætta í hrönnum. Um leið vara þeir við því að með nýjum eigendum, sem þeir virðast sannfærðir að séu mjög hliðhollir Framsóknarflokknum, sé „múrinn milli ritstjórnar og eigenda að hverfa“. Þeir segja að eigendurnir endurspegli að „fjársterk öfl í íslensku samfélagi sem hatast við frjálsa fjölmiðlun“ séu að ná yfirtökunum á DV og að þeir ætli að breyta blaðinu í „kjölturakka sem ekki geltir“. Nýjum útgefanda DV er síðan legið á hálsi með að ala á „sjálfsritskoðun“.
Við Rauðavatn sjá margir starfsmenn Árvakurs, sem rekur Morgunblaðið og mbl.is, mikið eftir Óskari Magnússyni, fyrrum útgefanda, sem hætti nú um mánaðarmótin. Óskar þykir hafa staðið fast með faglegum hluta ritstjórnar miðilsins í rimmum hennar við ritstjórana tvo, Davíð Oddsson og Harald Johannessen. Við starfslok Óskars varð Haraldur auk þess gerður að framkvæmdastjóra Árvakurs og sinnir því starfi í umboði eigenda. Samhliða verður hann áfram ritstjóri og á að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði, meðal annars gagnvart eigendum.
Hjá 365 var annar ritstjórinn, Mikael Torfason, rekinn síðastliðið sumar og hinn, Ólafur Stephensen, hætti skömmu síðar eftir að hafa ritað leiðara þar sem sagði meðal annars: „ Það eru ýmsar aðferðir til að hola hið ritstjórnarlega sjálfstæði að innan. Ein getur verið að gera sífelldar athugasemdir við fréttaflutning sem tengist eigendunum og vona að það síist inn hjá stjórnendum ritstjórnarinnar að það sé betra að sleppa slíkri umfjöllun en að styggja eigendurna. Önnur getur verið að gera ekki beinar athugasemdir við umfjöllun sem snýr að eigendunum, heldur skrúfa upp þrýstinginn vegna annarra mála sem snúa að ritstjórninni þannig að stjórnendurnir skilji samhengið. Það getur þurft sterk bein til að þola slíkan þrýsting. Sú þriðja getur svo verið að ráða til stjórnunarstarfa á ritstjórnum fólk sem er nægilega náið og handgengið eigendunum til að láta prinsipp um ritstjórnarlegt sjálfstæði ekki þvælast fyrir sér“.
Ólafur Stephensen, fyrrum ritstjóri Fréttablaðsins, skrifaði leiðara sem opinberaði óeðlileg afskipti eigenda að fréttaflutningi.
Gagnrýni og brotthvarf þeirra Mikaels og Ólafs kom í kjölfar þess að frétt um samkeppnisaðila var fjarlægð út af vef Vísis að beiðni Kristínar Þorsteinsdóttur, sem skömmu áður hafði verið ráðin útgefandi 365 miðla. Augljóst er að Kristín er sú sem Ólafur vísaði til þegar hann skrifaði um fólk sem láti ekki prinsipp um ritstjórnarlegt sjálfstæði þvælast fyrir sér, enda er hún mjög nátengd aðaleigendum 365 miðla, Ingibjörgu Pálmadóttur og eiginmanni hennar Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.
Á meðan að á öllum þessum sviptingum hefur staðið hefur varla heyrst svo mikið sem píp frá Blaðamannafélagi Íslands, sem á samkvæmt sínum eigin lögum að „gæta faglegra og stéttarlegra hagsmuna félagsmanna í hvívetna“. Hjálmar Jónsson, formaður félagsins, gaf hins vegar ekki kost á sér í umræðu um sviptingarnar á DV þegar Síðdegisútvarp Rásar 2 leitaði eftir því í dag.
Þessi afstaða Blaðamannafélagsins er orðin nokkuð algeng. Í huga margra blaðamanna er félagið lítið annað en þröngur rassvasafélagsskapur handfylli manna sem sinnir faglegum hagsmunum félagsmanna nánast ekkert, heldur einbeitir sér mest að því að leigja út sumarbústaði.
Í bakherberginu, sem er að þessu sinni troðfullt af blaðamönnum, þykir hið valkvæða afskiptaleysi fagfélagsins af þeim fordæmalausu hræringum og ógnum sem steðja að íslenskum fjölmiðlum daðra við hið fáránlega. Sérstaklega þar sem lög Blaðamannafélagsins segja að hlutverk þess sé „að standa vörð um prent- og tjáningarfrelsi“, að „standa fyrir faglegri umræðu meðal félagsmanna og leitast við að hafa áhrif á opinbera stefnu og samfélagslega umræðu um fjölmiðlum og tjáningarfrelsi“, að „standa vörð um ritstjórnarlegt frelsi og sjálfstæði fjölmiðla“ og síðast en ekki síst að „standa vörð um hagsmuni stéttarinnar gagnvart eigendum fjölmiðla, löggjafarvaldi og stjórnvöldum“.
En blaðamenn geta auðvitað sjálfum sér um kennt. Þeir nenna sjaldnast að mæta á aðalfundi Blaðamannafélagsins til að kjósa fólk til áhrifa innan félagsins.