Fólkið í bakherberginu er hugsi yfir stöðu mála í stjórnmálunum í augnablikinu, einkum er það stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem er til umræðu. Ríkisstjórnin virðist algjörlega ósamstíga, eins og taktlaust danspar, í augnablikinu. Einkum og sér í lagi þegar kemur að tveimur mikilvægum geirum, sjávarútvegi og ferðaþjónustu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þorði ekki að koma fram með frumvarp til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, og var afdráttarlaus þegar hann skýrði frá því hvers vegna það var í viðtali. Stjórnarflokkarnir voru algjörlega ósammála um upplegg málsins og efnislegar ástæður fyrir breytingunum á kerfinu sem frumvarpið boðaði, sagði Sigurður Ingi nokkuð skýrt. Það verður að teljast með nokkrum ólíkindum að þetta séu lyktir málsins. Framsóknarflokkurinn hefur lengi haft það sem stefnumál að leiða til lykta deilur um kvótakerfið með breytingum sem taka af allan vafa um eignarhald almennings á sjávarútvegsauðlindinni í kringum landið, og einnig að almenningur eigi að njóta í ríkara mæli góðs af auðlindinni og sókn í hana. Innan Sjálfstæðisflokksins eru þau sjónarmið þekkt, að það sé ástæðulaust að breyta kerfinu. Þessi djúpstæði ágreiningur flokkanna, um sjálft fiskveiðistjórnunarkerfið, hefur nú leitt til þess að ríkisstjórnarflokkarnir vita ekki hvað gera skuli, og málið hefur fallið niður dautt.
Náttúrupassi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er síðan hálfgert pólitískt viðundur, þar sem mikil og rík andstaða er við frumvarp ráðherrans í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, bæði innan Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins! Fólkið í bakherberginu man ekki eftir baráttumáli ráðherra sem hefur jafn lítinn stuðning meðal stjórnarflokkanna og tilfellið er með náttúrupassann. Á meðan hugmyndin um náttúrupassann var að fæðast fjölgaði ferðamönnum reyndar svo mikið að fjölgunin ein og sér, hefur skilað mun hærri skatttekjum en náttúrupassinn á að skila í ríkiskassann. Allt er þetta með nokkrum ólíkindum, og ekki augljóst hver verður niðurstaðan. Framsóknarflokkurinn virðist í það minnsta næstum alveg andsnúin málinu, og eins og áður sagði; þá er andstaðan líka mikil í flokki ráðherrans.
Þessi mál varða tvo stærstu geira íslenska hagkerfisins, sjávarútveg og ferðaþjónustu. Það er ekki oft þar sem sést jafn glögglega og nú að hver höndin er uppi á móti annarri innan ríkisstjórnarinnar.