Stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, tilkynnti nýverið að Haraldur Johannessen hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Lítið er við það að athuga utan þess að Haraldur er annar ritstjóri Morgunblaðsins, og mun gegna því starfi áfram samhliða framkvæmdastjórastarfinu á nýju ári.
Í lögum um fjölmiðla, sem samþykkt voru á Alþingi árið 2011, er fjallað sérstaklega um ritstjórnarlegt sjálfstæði í heilli grein. Þar segir meðal annars að reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði eigi að tryggja starfshætti sem tryggi slíkt sjálfstæði gagnvart eigendum fjölmiðilsins.
Haraldur Johannessen, ritstjóri og verðandi framkvæmdastjóri.
Hverjum fjölmiðli er gert að setja slíkar reglur og skila inn til fjölmiðlanefndar. Í reglum Árvakurs um ritstjórnarlegt sjálfstæði segir:
„Ákvarðanir um efni sem birt er í Morgunblaðinu og tengdum miðlum eru í höndum ritstjóra Morgunblaðsins eða eftir atvikum í höndum þeirra sem ritstjórar Morgunblaðsins fela efnisvalið. Ritstjórar, og þar með ritstjórn, eru sjálfstæð í störfum sínum gagnvart öðrum. Starfsmenn ritstjórnar heyra undir ritstjóra og þeim er hverju sinni búin bestu mögulegu skilyrði til að framfylgja stefnu ritstjórnar“.
Í bakherbergjunum hafa ýmsir klórað sér í höfðinu yfir því hvernig ritstjórar, og þar með ritstjórn, geti verið sjálfstæð í störfum sínum gagnvart öðrum þegar annar ritstjórinn er líka framkvæmdastjóri útgáfufélagsins? Framkvæmdastjóri er enda ráðinn af stjórn til að framfylgja stefnu hennar.
Flestir fastagestir bakherbergisins vita að í eigendahópi Árvakurs, sem skipar stjórnina, eru aðilar sem eiga ríka fjárhagslega hagsmuni undir því að stjórnmál og stefna landsins þróist með hagkvæmum hætti fyrir þeirra atvinnustarfsemi.
Það verður því áhugavert að sjá hvaða hatt Haraldur Johannessen, ritstjóri og framkvæmdastjóri, setur á sig ef upp kemur álitamál milli ritstjórnar og stjórnar. Með hvorum myndi Haraldur standa í þeirri deilu ef reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði segja að ritstjórninn, og ritstjórinn, eigi að vera sjálfstæð í störfum sínum gagnvart öðrum en lög segja að framkvæmdastjóri verndi hagsmuni eigenda? Eða verður Davíð Oddssyni, hinum ritstjóra Morgunblaðsins, eftirlátið að verja ritstjórnina fyrir eigendum og stjórn ef þðrf verður fyrir?
Og enn áhugaverðara verður að sjá hvort fjölmiðlanefnd geri einhverjar athugasemdir við þetta fordæmalausa fyrirkomulag.