Árni Sigfússon var bæjarstjóri í Reykjanesbæ í tólf ár, frá árinu 2002 og fram að síðustu kosningum, þegar kjósendur í sveitarfélaginu höfnuðu honum. Ástæður þess að Árni átti ekki lengur upp á pallborðið hjá Suðurnesjamönnum eru ugglaust margar, en sú sem var fyrirferðarmest var afleit fjárhagsstaða sveitarfélagsins. Í tíð Árna fjórfölduðust nefnilega skuldir A hluta bæjarsjóðs og Reykjanesbær var rekinn með halla af reglulegri starfsemi öll árin á tímabilinu 2002 til 2013, nema eitt, árið 2010. Til að mæta þessari stöðu voru stór lán tekin og flestar eignir seldar. Í kolsvartri úttekt sem gerð var á stöðu Reykjanesbæjar, og birt var í lok október, kom fram að sveitarfélagið er nú það skuldsettasta á landinu og skuldar alls um 40 milljarða króna.
Árni er enn ungur maður, einungis 58 ára, og er því fjarri því að setjast í helgan stein þótt hann sé ekki lengur bæjarstjóri. Hann þurfti enda ekki að bíða lengi eftir nýju starfi. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði verkefnastjórn sem til að fylgja eftir útbreiðslu og notkun rafrænna skilrikja. Sú verkefnastjórn réð síðan Árna sem verkefnastjóra innleiðingar rafrænna skilríkja. Í nýjasta tölubaði Tíundar, fréttablaðs ríkisskattstjóra, er grein eftir Árna þar sem hann fer yfir þá innleiðingu sem framundan er næstu árin.
Á mynd sem fylgir greininni sést Árni með tveimur stjórnarmönnum úr verkefnastjórninni og almannatenglinum Gunnari Steini Pálssyni. Af myndinni að dæma er hann að starfa að innleiðingunni líka.
Í bakherbergjunum var það rifjað upp að Gunnar Steinn hefur unnið mikið fyrir Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings og Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings-samstæðunnar, auk þeirra Ágústar og Lýðs Guðmundssona í Bakkavör. Í skjali sem fannst við húsleit árið 2009 merkt Gunnari Steini var sett fram víðtæk áætlun um áhrif á umræðu um helstu lykilpersónur í hruninu sem honum tengdust. Í skjalinu kemur m.a. fram hvernig hægt vær að stofna bloggher til að hafa áhrif á umræðuna.
Hlutverk Gunnar Steins í innleiðingu rafrænna skilríkja er líkast til að reyna að móta umræðuna í kringum hana þannig að nýju skilríkjunum verði tekið með sem jákvæðustum hætti. Ætli hann ræsi út bloggher til að tryggja þá niðurstöðu?