Það hafa ugglaust margir andað léttar þegar Hagstofan birti tölur um hagvöxt á árinu 2014 í gær. Þar kom fram að hann hafi verið 1,9 prósent á síðasta ári. Ástæða þessa er sú að hagvöxtur mældist einungis 0,5 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins, sem var miklu lægra en til dæmis þau 2,7 prósent sem voru forsendur fjárlaga fyrir árið 2014, sá 2,9 prósent hagvöxtur sem Seðlabanki Íslands spáði upphaflega eða sá 3,1 prósent hagvöxtur sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mætti í útvarpsviðtal í upphafi árs og sagði skekkju í útreikningum útskýra stöðuna eftir níu mánuði. Þegar árið í heild yrði skoðað þá „muni hagvöxtur hér verða umtalsverður, og meiri en annars staðar í Evrópu“.
Í bakherberginu hafa þessi ummæli verið skeggrædd. Vissulega er hagvöxtur á Íslandi hærri en innan Evrópusambandsins, þar sem hann var 1,4 prósent í fyrra. Samkvæmt tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, varð hins vegar meiri hagvöxtur í Ungverjalandi (3,4 prósent), Litháen (2,5 prósent), Lettlandi (2,1 prósent), Spáni (tvö prósent), Eistlandi (2,6 prósent), Rúmeníu (2,5 prósent), Slóveníu (tvö prósent), Póllandi (3,2 prósent), Slóvakíu (2,4 prósent), Svíþjóð (2,6 prósent), Bretlandi (2,7 prósent), Noregi (þrjú prósent) og Sviss (tvö prósent) en á Íslandi á árinu 2014.
Öll eru þessi lönd sannarlega í Evrópu.
Reyndar verður alltaf að taka öllum hagvaxtartölum sem reiknaðar eru á Íslandi með miklum fyrirvara. Þær eru oft leiðréttar mörgum árum eftir að þær eru gefnar út. Svæsnasta dæmið er góðærisárið 2007, þegar Seðlabankinn spáði því að hagvöxtur yrði 0,8 prósent. Hagstofan gaf síðan út árið 2008 að hann hefði verið sex prósent. Í fyrra var hagvöxtur fyrir það ár „leiðréttur“. Hann reyndist hafa verið nálægt tíu prósentum.